Ágætur leikhúsmaður segir á bloggsíðu sinni: “Opinions are like Assholes. Everybody’s got one”. Það eru orð að sönnu og það er heldur enginn hörgull á skoðunum í leikverkinu American Diplomacy sem Hið lifandi leikhús frumsýndi í Borgarleikhúsinu fimmtudagskvöld 24. febrúar. Meira að segja bregður fyrir rassgati undir lok sýningar og má kannski einhvern hátt má segja að það sé lýsandi fyrir sýninguna og styður kannski fyrrnefnda kenningu enn frekar.
Í kynningu á verkinu American Diplomacy sem er skrifað af leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarsyni, er því lýst sem pólítískum gamanleik sem tekur á málefnum líðandi stundar. Vettvangurinn er Stjórnarráð Íslands þar sem landbúnaðarráðherrann Guðbjörn Halldórsson, tekst á við nýtilkomið hlutverk sitt sem eini eftirlifandi ráðherra ríkistjórnarinnar, í kjölfar þess að eitrað er fyrir ríkisstjórninni eins og hún leggur sig í matarveislu í bandaríska sendiráðinu. Ráðherrann sem skyndilega er orðinn æðsti maður þjóðarinnar nýtur “aðstoðar” einkaritara og sérlegs aðstoðarmanns forsætisráðherra við að stýra þjóðarskútunni í þeim ólgusjó alþjóðlegra hryðjuverka og styrjalda sem heimurinn hefur velkst í undanfarin misseri. Þá eru samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin mjög til umfjöllunar í verkinu.
Ekki er ætlunin að segja nánar frá söguþræðinum enda er hann sannast sagna frekar rýr. Í upphafi eru helstu persónur kynntar til sögunnar en síðan gerist nákvæmlega ekki neitt fram að hléi. Engin framvinda er í sýningunni fyrripartinn, ekkert plott í gangi, aðeins merkingarlítil samtöl aðalpersónanna sem virðast án sjánlegs tilgangs fyrir framvindu verksins. Eftir hlé tekur ekki mikið betra við þó að einhver framvinda eigi sér þó stað. Í lokin sitja áhorfendur frekar kindarlegir eftir og hafa sennilega litla hugmynd um hvað höfundurinn með aðstoð leikstjóra, var að reyna að segja þeim.
Höfundi American Diplomacy liggur auðsjáanlega mikið á hjarta. Hann hefur skoðanir á mörgu og liggur ekki á þeim í þessari sýningu. Gallinn er bara sá að ofgnótt skoðana ein og sér, býr ekki til áhugaverða leiksýningu, ekki einu sinni þó um pólitíska ádeilusýningu sé að ræða. Þar verður eitthvað meira að koma til, einhver listræn sýn, einhver nálgun sem fær viðfangsefnið til að skipta áhorfandann máli á einhverju plani. Þar getur verið um að ræða allt frá bitru sverði hinnar pólitísku ádeilu til parodíunnar sem kemur áhorfendum til að sjá það hlægilega og fáranlega við hið pólitíska vald. Ef eitthvað í þá veru er ekki til staðar í leiksýningu sem vill kalla sig pólitíska á hún ekkert erindi við áhorfandann. Ef skoðununum er ekki búinn nýr búningur, ef ekki er brugðið á þær nýju ljósi er einfaldlega hægt að sitja heima og horfa á Kastljósið eða Ísland í dag. Nú eða Spaugstofuna. Áhorfendur fara ekki í leikhús til þess eins að hlusta á skoðanir annarra, jafnvel þó þeir séu þeim sammála. Ibsen og Fo höfðu skoðanir í bunkum en kunnu jafnframt þá list að láta þær ekki bera verk sín ofurliði. Kannski var það einmitt þessvegna sem skoðanir þeirra urðu jafn áhrifamiklar og raun hefur borið vitni.
Leikstjóri með skýran fókus hefði mögulega getað gert þokkalega leiksýningu úr þessu rýra verki en því er ekki að heilsa hér. Oft er sagt að höfundar eigi ekki að leikstýra eigin verkum en það er þó engan veginn algilt eins og mýmörg dæmi sanna. Ef eitthvað er ætti höfundur öðrum fremur að hafa skýran fókus á eigin verk en því er ekki þannig farið hér. Hvað svo sem veldur er hlaupið úr einum stíl í annan í sýningunni, farið úr settlegum gamanleik yfir í farsa, þaðan yfir í absúrdleikhús sem aftur færist yfir í einhversonar útgáfu af realisma sem síðan breytist í gamanleik að nýju. Lítið er gert úr kringumstæðum persónanna til að búa til lifandi atriði heldur er að mestu byggt á misgóðum texta til að framkalla viðbrögð. Leikarar fara með texta sem stundum er hægt að kíma yfir og af og til kemur áhorfendum jafnvel til að hlæja en virka þess utan yfirleitt ráðvilltir. Sérstaklega var einkennilegt að hlusta á reglulegar vangaveltur ræstitæknis Stjórnarráðsins um lífið og tilveruna en hann virtist gegna því hlutverki að vera málpípa höfundar. Í samhengi sýningarinnar var persóna hans fráleit. Hjálmar Hjálmarsson sem mest mæðir á í hlutverki Guðbjarnar Halldórssonar berst hetjulegri baráttu og á heiður skilið fyrir framlag sitt. Aðrir leikarar gera hvað þeir geta án mikils árangurs erfiðis síns. Nokkurs óöryggis gætti í leik og sviðsferð og ljóst að sýningin mun þó væntanlega batna aðeins þegar leikhópurinn nær betra valdi á því sem hann er að gera.
Ekki verður komist hjá því að bera þessa sýningu saman við sýningu Stúdentaleikhússins á Þú veist hvernig þetta er sem einnig gefur sig út fyrir að vera pólitísk ádeilusýning. Þar er fjallað um ekki óskylda hluti þó á ólíkan hátt sé. Munurinn er þó aðallega sá að þar verður til alvöru leiksýning sem snertir við áhorfandanum. Krafturinn og ástríðan og svo undirritaður leyfi sér að sletta, óforskammað “attitjúdið” sem þar sást gerði þá sýningu að lifandi list sem hreyfði duglega við þeim sem á horfðu.
Undirritaður er ekkert sérstaklega mikill áhugamaður um pólitískt leikhús í sjálfu sér og telur þær raddir sem sífellt meir er farið að heyrast í og krefjast þess að leikhúsið verði pólitískara, vera á algerum villigötum. Leikhúsið myndi deyja ansi hratt og örugglega ef sú krafa væri skilyrðislaust gerð að pólitísk afstaða væri tekin við uppsetningu sýninga. Ekki er þar með sagt að pólitík eigi ekki erindi í leikhúsið en því fer fjarri að hún eigi að móta það. Listin talar til fólks á svo margvíslegan hátt að krafan um að hún eigi að vera svona eða hinsegin er einfaldlega á misskilningi byggð.