Leikkonan Þóra Karitas Árnadóttir hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í einleiknum Ég heiti Rachel Corrie en verkið byggir á skifum Rachel sem lést við friðargæslustörf í Palestínu þegar ísraelsk jarðýta ók yfir hana þar sem hún mótmælti niðurrifi húsa á Gaza svæðinu.

Það var leikarinn, Alan Rickman, sem meðal annars er kunnur úr kvikmyndunum um galdradrenginn Harry Potter, sem skrifaði verkið. Hann hreifst mjög af skrifum Rachel og setti sig strax í samband við foreldra hennar og fékk þeirra blessun við að skrifa einleik sem byggði á dagbókarskrifum hennar. Rickman fékk Guardian blaðamanninn Katherine Viner til liðs við sig og einleikurinn My name is Rachel Corrie varð til og sló í gegn í Royal Court leikhúsinu í London árið 2003. Síðan þá hefur einleikurinn vakið verðskuldaða athygli út um allan heim.

Foreldrar Rachel Corrie eru nú stödd á Íslandi, en þau tóku þátt í málþingi á sunnudag og umræðum að lokinni sýningunni um kvöldið sem var jafnframt síðasta sýning verksins. Nú hefur hins vegar verið brugðið á það ráð að bæta við aukasýningu næstkomandi sunnudagskvöld, 26. apríl, kl. 20.00 vegna fjölda áskorana. Miðasala er þegar hafin á vef Borgarleikhússins borgarleikhus.is og í síma 568 8000. Einungis verður um þessa einu aukasýningu að ræða.

Leikstjóri Ég heiti Rachel Corrie, er María Ellingsen en eins og áður sagði er það leikkonan Þóra Karitas Árnadóttir sem fer með hlutverk Rachel Corrie.

Ég heiti Rachel Corrie er sett á svið í samstarfi við Imagyn.

{mos_fb_discuss:2}