Hugleikur stendur fyrir tveggja daga námskeiði í leikhúsbrellum (special effects) í förðun lau. 21. og sun. 22. október. Þátttakendur læra að nota latex og vax við sáragerð og aðrar leikhúsbrellur. Þau læra um bestu aðferðir og val á réttum litum fyrir marbletti, sár, hrukkur og fleira. Vilji þátttakendur fræðast um fleiri atriði í leikhúsförðun gefst færi á umræðum og mögulega sýnikennslu tengt þeim. Leiðbeinandi er Ninna Karla Katrínar en hún hefur hefur mikla reynslu af leikhúsförðun og er m.a.  með diplómu í listförðunarfræði frá MASK Makeup & Airbrush Academy.
Skipulag námskeiðs:
Laugardagur kl. 11-15 – Ninna verður með sýnikennslu í allskyns leikhúsförðunarbrellum en einnig fá þátttakendur að prófa aðferðirnar hvert á öðru eða á sjálfu sér. Ef tími gefst geta þátttakendur hafið undirbúning að verkefni seinni dagsins.
Sunnudagur kl. 11-15 – Þátttakendur hafa með sér módel og búa til karakter. Módelið má vera af hvaða kyni sem er og á hvaða aldri sem er en gott er að hafa í huga að módelið henti vel í fyrirhugað verkefni.
Útfærsla verkefnisins er valfrjáls, velja má karakter úr leikriti eða kvikmynd eða búa til sinn eigin karakter. Þátttakendur vinna „heildarlúkk“, þ.e. förðun og búning, en nýta það sem þer lærðu daginn áður og sýna það í lúkkinu. Ninna verður þeim að sjálfsögðu innan handar og deginum lýkur á myndatöku. Gott er að hafa í huga námskeiðið gæti dregist á langinn þann dag.
Laust er fyrir 8 á námskeiðinu og kostar það 10.000 kr. fyrir félaga í Hugleik sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi leikárs, en 14.000 kr fyrir önnur. Innifalið í námskeiðsgjaldi er aðgangur að öllum efnum og áhöldum sem nota þarf í leikhúsförðun og nóg af kaffi. Námskeiðið fer fram í húsnæði leikfélagsins Hugleiks að Langholtsvegi 109-111 (gengið inn baka til).