Leikfélag Sólheima hefur sýningar á verkinu Árar,álfar og tröll: Sólheimaævintýri. Frumsýnt verður í Sólheimaleikhúsinu á sumardaginn fyrsta, þann 22.apríl og verða 5 talsins. Verkið er skrifað af Hannesi Blandon og Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni en Lárus Sigurðsson gerði tónlistina. Guðmundur leikstýrir einnig verkinu en hann er leikfélaginu að góðu kunnur þar sem þetta er í fimmta sinn sem hann leikstýrir á Sólheimum. Fjöldi íbúa Sólheima kemur að verkinu bæði í leikhlutverkum og bakvið tjöldin.
Verkið er ævintýri sem fjallar um baráttukonuna Sesselju sem á sér þann draum að opna barnaheimili þar sem allir geta lifað í sátt og samlyndi en þarf til þess fyrst að takast á við konungsríkið og alls kyns verur, svo sem tröll og álfa. Leikfélag Sólheima var stofnað 1931 og á því 90 ára afmæli í ár. Leikfélagið frumsýnir alla jafna alltaf á sumardaginn fyrsta en engin sýning var árið 2020 vegna heimsfaraldursins. Það er því sérstök eftirvænting í ár að sjá leikrit aftur á Sólheimum Miðasala fer eingöngu fram á heimasíðu Sólheima www.solheimar.is. Nánari upplýsingar og fyrirspurnir í síma 847-5323.