Eftir langa bið hefur stórt skref verið tekið í uppbyggingu menningarlífs í Ölfusi en Leikfélag Ölfuss fær nú loksins sitt eigið leikhús. Allt frá stofnun félagsins árið 2005 hefur félagið sýnt í Versölum, menningarhúsi sveitarfélagsins en það hús hefur verið samnýtt með ýmiss konar annarri starfsemi með tilheyrandi árekstrum. Til að mynda hefur þurft að taka niður leikmyndir á miðju sýningartímabili þegar halda þarf veislur eða annað þvíumlíkt í húsinu. Hefur það skapað heilmikla þreytu í leikfélögum og hamlað uppvexti og þróun félagsins.
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú tekið húsnæði á leigu sem mun nýtast LÖ sem leikhús að Selvogsbraut 4 og fékk stjórn lyklavöld þann 1. apríl. LÖ hefur einu sinni áður sýnt í húsnæðinu, árið 2015 þegar leikritið Einn rjúkandi kaffibolli eftir Aðalstein Jóhannsson var sett á svið undir leikstjórn F. Ella Hafliðasonar. Húsið telur sal sem er um 120 m2 auk rúmgóðs geymslukjallara undir húsinu. Er því hér komið húsnæði sem smellpassar starfseminni. Í sama húsnæði er aðstaða fyrir nýstofnað Hljómlistafélag Ölfuss og þar er einnig að finna veitingahúsið Hendur í höfn. Framundan er þó nokkur vinna við að koma húsinu í stand og flytja eigur félagsins úr gamla Indriða sem löngu er sprunginn sem geymsluhúsnæði.
Mikil gleði ríkir í herbúðum Ölfusinga og stefnt að því að taka leikhúsið í notkun leikárið 2021-2022.