Ævintýrið um Augastein er hugljúft jólaævintýri sem frumsýnt var fyrir 10 árum og hefur verið sýnt reglulega á aðventunni bæði hér á landi og í Bretlandi. Nú hafa orðið kynslóðaskipti í sýningunni, því Orri Huginn Ágústsson er tekinn við af Felix Bergssyni, sem hefur borið uppi sýninguna frá byrjun. Ævintýrið um Augastein var upphaflega samið á ensku og frumsýnt í Drill Hall leikhúsinu í London, en ári síðar var verkið frumflutt í íslenskri útgáfu í Tjarnarbíói. Það sama ár kom ævintýrið út á bók, sem notið hefur mikilla vinsælda. Fyrsta sýning verður sunnudaginn 25. nóvember og verða sýningar á sunnudögum út aðventuna.

Verkið byggir á sögunum um sveinstaulana þrettán, syni Grýlu og Leppalúða, sem áttu það til að hrella fólk um jólaleytið, en í ævintýri leikhópsins er það drengurinn Augasteinn sem allt snýst um. Hann lendir fyrir tilviljun í höndum jólasveinanna hrekkjóttu, sem vilja ólmir taka hann að sér, en þegar Grýla kemst á snoðir um tilvist hans æsist leikurinn. Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og jólakattarins áður en jólin ganga í garð?

Leikari: Orri Huginn Ágústsson
Meðleikari og sviðsstjóri: Guðmundur Felixson
Höfundur: Felix Bergsson
Brúður og leikmynd: Helga Arnalds
Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason
Tónlistarstjóri: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson
Upptökustjóri: Sveinn Kjartansson
Leikstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir

Nánari upplýsingar á www.tjarnarbio.is