Jólaleikrit Borgarbarna þessi jól ber nafnið Jólaævintýrið og er eftir Erlu Ruth Harðardóttur sem jafnframt leikstýrir. Er þetta sjöunda árið í röð sem Borgarbörn setja upp jólasýningu og hafa þær allar notið mikilla vinsælda. Verkið verður frumsýnt í Iðnó 1. desember og sýnt í desember.
Að þessu sinni fjallar sýningin um jólaævintýri stúlkna á munaðarleysingjahæli. Þeim áskotnast jólaglerkúla sem er þeim töfrum gædd, að við hvern hristing birtast ýmsar þekktar ævintýrapersónur úr kúlunni. Að vissu leyti skapar þetta spennu og gleði en verra er þó að þær persónur sem birtast, eru ekki allar góðar – frekar en forstöðukona munaðarleysingjahælisins. Leikritið er fullt af boðskap og inniheldur vinsæl lög ásamt skondnum texta, uppákomum og dönsum.
Sýningin er rétt undir klukkustund í flutningi. Eftir sýningu er áhorfendum boðið upp á piparkökur og djús. Jólagjafasöfnun Borgarbarna fyrir Mæðrastyrksnefnd er árleg hefð. Þá geta áhorfendur komið með pakka, merktan aldri og kyni, á sýningar og leikarar sjá um að skila til Mæðrastyrksnefndar fyrir jól.
Miðaverð er kr. 1.000 – gjöf en ekki gjald, vilja margir meina. Ef keypt er heil sýning (miðað við 150 sæti – tilvalið fyrir starfsmannafélög og skóla) er miðaverð kr. 500.
Miðapantanir í miðasölu Iðnó sími 562-9700 (milli kl. 11:00-16:00) Fyrirspurnir má senda á borgarborn@gmail eða í síma 861-6722.