Litli leikklúbburinn
Kötturinn sem fer sýnar eigin leiðir
Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Halldóra Björnsdóttir

Maður finnur það svo vel í hjartanu þegar eitthvað hefur hrifið mann og líðanin verður ögn betri en venjulega. Fær jafnvel trú á æskuna og framtíð mannkynsins og allt það. Svoleiðis leið manni eiginlega eftir frumsýningu Litla Leikklúbbsins á því ágæta verki Ólafs Hauks Símonarsonar, Kettinum sem fór sínar eigin leiðir. Köttinn samdi Ólafur eftir að hafa lesið Kipling og manni finnst eins og það hafi verið gráupplagt að semja svona verk upp úr Kettinum sem Halldór Stefánsson rithöfundur þýddi á góða íslensku fyrir margt löngu.

Og Óli gerði meira en að semja leikritið, hann framkallaði tónlist sem hefur lifað í átatugi. Ungir tónlistarmenn spiluðu á sýningunni alveg frábærlega vel, bæði af kunnáttu og hógværð. Halldóra Björnsdóttir leikstjóri gjörnýtti salinn í Edinborgarhúsinu og raðaði leikhúsgestum kringum ,,sviðið.“ Við það varð sýningin mjög miðlæg og leikararnir komust betur að hjörtum og nýrum áheyrenda og áhorfenda. Því það er nú einu sinni svo að hjartað ræður mjög för í leikhúsinu.

kisiEngir statistar eru í verkinu og hver persóna hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Sagan gerist í árdaga þegar Adam er einn manna á jörðinni og rifbeini er stolið úr rifjahylki hans. Til verður þessi fyrsta kona sem hann lítur náttúrlega niður á, en horfir bara á gáfulega ásjónu sína í speglinum.

Dýr merkurinnar lenda í kompaníi við skötuhjúin og hundurinn lætur fyrstur glepjast og gerist manninum undirgefinn. Sama er að segja um villihestinn og villikúna sem selja sig fyrir heytuggu. Kötturinn er hins vegar ekki á þeim buxunum að gerast handgenginn mannskepnunni og þráast við. Laðast þó að manninum á skjön þegar hann fær mjólkurlögg og hefur þörf fyrir nálægð hans. Samt fer hann nokk síðar eigin leiðir.
Leikverkið Kötturinn fer sínar eigin leiðir höfðar til allra tíma eins og sígild verk gera jafnan. Og ekki síst til nútímans þar sem karlremban lætur lítt deigan síga.

Annars eru persónuleikar katta jafn ólíkir og þeir eru margir. En allir eiga þeir þó það sameiginleg að láta ekki kúga sig með öllu þegar í harðbakkann slær. Geta jafnvel orðið svo móðgaðir af minnsta tilefni að þeir hverfa heiman að frá sér. Eiga það svo til að koma heim eftir einhver misseri til að ala á sektarkennd eigenda sinna. Stunda sem sagt sálfræðihernað af bestu sort.

hundurinnHinn hégómagjarni karlmaður

Sýning Litla leikklúbbsins fer ögn hægt af stað og leikendur fá heldur litla örvun frá salnum. Svo gerist það skyndilega að allt fer í gang og athyglin verður óskipt með viðburðum á sviðinu. Hundurinn fær sitt bein, hrossið sitt hey og sömuleiðis blessuð kýrin og þau gerast manninum undirgefin í þessum vöruskiptum. Maðurinn (karlmaðurinn) er stórhlægilegur og hefur greinilega ekkert breyst, þarf að leggja sig í tíma og ótíma sem körlum nútímans er enn tamt. Konan finnur til þeirrar ábyrgðar að uppfylla jörðina. Er víst svoleiðis enn þann dag í dag í eðlilegum samfélögum sem ekki hafa orðið firringunni að bráð eins og farið er að bera á í gömlum iðnríkjum Evrópu. Barn verður auðvitað til í verkinu og er það þá kötturinn sem fer sínar eigin leiðir sem rennur blóðið til skyldunnar og huggar barnið og umsorgar það. Hver þekkir ekki til katta, hvort sem það eru læður eða fress sem vaka yfir velferð ungra barna og láta vita, ef eitthvað amar að þeim?

Sigríður Salvarsdóttir fer með hlutverk kattarins og er orðinn algjör köttur áður en yfir líkur. Sveinbjörn Hjálmarsson er maðurinn og nær að gera hann hégómagjarnan og hlægilegan. Álfheiður Elín Bjarnadóttir er alvörukona í verkinu og leikur burðarhlutverk og verður barni aukin. Hundurinn er ágætlega ósjálfstæður og hikandi í meðförum Magnúsar Traustasonar. Finnbogi Dagur Sigurðsson er mjög sannfærandi hross og fatast aldrei flugið með mannskepnuna á bakinu á sér. Elísabet Traustadóttir fær manni mjólk í munninn með öllu þessu júgri utan á sér og Kristín Harpa Jónsdóttir verður að litlu barni með ágætum.

Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir er stórskemmtileg sýning og mannbætandi hjá Litla Leikklúbbnum og hvert einasta orð skildist bæði í tali og söng og má leikstjórinn vera glaður með það svo og alla sýninguna.

Til lukku með uppfærsluna, hjartað malaði af vellíðan á eftir.

Finnbogi Hermannsson