Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga ákvað á stjórnarfundi um helgina að fresta aðalfundi fram í september. Aðalfundur var fyrirhugaður í Reykjanesbæ í boði Leikfélags Keflavíkur en af augljósum ástæðum verður hann ekki haldinn þar í byrjun maí eins og fyrirhugað var. Líklegt er að aðalfundurinn verði haldinn á höfuðborgarsvæðinu helgina 18.-20. september en ekki hefur verið ákveðið hvort hann verður með hefðbundnu formi eða honum lokið á einum degi, sem yrði þá væntanlega laugardagurinn 19. september. Stjórnarmenn eru nú að hafa samband beint við félögin til að hlera þeirra skoðanir. Að því loknu tekur stjórn ákvörðun og tilkynnir niðurstöðu.

Óvissa ríkir um flesta hluti þetta misserið og hafa aðildarfélögin ekki farið varhluta af því. Mörg þurftu að hætta sýningum í miðjum leik og önnur hafa þurft að fresta fyrirhuguðum frumsýningum til haustsins. Engin breyting er þó á hefðbundnum vorverkum félaganna:

Umsóknir um ríkisstyrk þurfa að berast í síðasta lagi 10. júní. Þá þarf einnig að hafa upptökur tilbúnar á vefnum. Þau félög sem eru í áskrift að VIMEO hjá okkur eru hvött til að nota dauða tímann í starfseminni til að hlaða upp upptökum af sýningum. Senda þarf póst á info@leiklist.is og óska eftir aðgangi. Hér er að finna leiðbeiningar um ferlið við að hlaða upp.

Ekki er vitað á þessari stundu hvaða áhrif ástandið mun hafa á Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins. Það skýrist væntanlega á næstu dögum. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að senda inn umsókn nú þegar ef menn vilja.

Leiklistarskóli BÍL heldur sínu striki þar til annað kemur í ljós. Opið er fyrir umsóknir hér.