ImageLeiklistarsamband Íslands-ITI hefur tilnefnt Jón Atla Jónasson, leikskáld, til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2006, fyrir leikverkið BRIM sem sýnt var af Vesturporti.
Í dómnefnd fyrir hönd Leiklistarsambandsins sátu þau Sveinbjörn I. Baldvinsson leikskáld, Steinunn Knútsdóttir leikstjóri og Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur.
 

ImageÍ umsögn þeirra segir:

"Leikritið BRIM stendur föstum fótum í séríslenskum veruleika um leið og það bregður upp sammannlegri mynd af hlutskipti manneskjunnar hvar sem er og hvenær sem er. Sú mynd er í formi dramatískrar fléttu áhrifaríkra frásagna af örlögum nokkurra manna sem eiga sameiginlegt að eyða mestum hluta lífs síns í sjálfvalinni einangrun á fiskiskipi.

Við fylgjumst með samskiptum þeirra, en framvindan er brotin upp við og við þegar þeir stíga út af sviðinu og leyfa okkur að skyggnast í huga sinn.

Án þess að segja nokkurn tíma of mikið, eða hlaða að óþörfu undir blóðhráan textann með nærtækum leikhúsmeðölum, fær sjaldgæfur slagkraftur einlægninnar og meðlíðaninnar með manneskjunni í heiminum að njóta sín, kraumandi heitur og nístandi kaldur."
 
Til Norrænu leikskáldaverðlaunanna var stofnað af Norræna leiklistarsambandinu og voru þau veitt í fyrsta sinn 1992 þegar norrænir leiklistardagar voru haldnir á Íslandi. Þá hlaut verðlaunin Hrafnhildur Hagalín þau fyrir leikrit sitt Ég er Meistarinn. Þau hafa ekki hlotnast íslensku leikskáldi síðan. Verðlaunin hafa verið veitt á tveggja ára fresti, þegar Norrænir leiklistardagar eru haldnir til skiptis á norðurlöndunum. Norrænu leikskáldaverðlaunin verða veitt á Norrænu leiklistardögum sem haldnir verða um mánaðamótin júlí/ágúst á næsta ári.