Hystory, nýtt íslenskt leikrit eftir Kristínu Eiríksdóttur sem sló í gegn í Borgarleikhúsinu árið 2015, verður sýnt í Hofi hjá Menningarfélagi Akureyrar þann 1. og 2. apríl næstkomandi. Kristín Eiríksdóttir var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir Hystory 2016 og verkið fékk einróma lof gagnrýnenda og fjöldan allan af tilnefningum til Grímuverðlaunanna 2016.

Leikritið er ísköld hversdagskómedía eftir Kristínu Eiríksdóttur. Dagný, Begga og Lilja voru bestu vinkonur í grunnskóla. Þegar þær voru fimmtán ára hættu þær að tala saman. Síðan eru liðin tuttugu og eitthvað ár. Þær mætast stundum. Í búðinni, úti að labba eða í ræktinni. Brosa, kinka kolli, segja: Sæææl… En hendurnar dofna og þær verkjar í hjartað. Einn daginn sendir Dagný þeim skilaboð á facebook og býður þeim heim. Til að hreinsa. En Beggu finnst ekki vera hægt að laga til í minningum annarra og Lilja segist ekki muna neitt. Og var það Eyvindur en ekki hundurinn sem skeit á stofugólfið?

Aðstandendur:
Höfundur: Kristín Eiríksdóttir
Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Lýsing: Valdimar Jóhannsson
Tónlist: Högni Egilsson
Hljóðfæraleikur: Claudio Puntin
Hljóð: Baldvin Magnússon
Leikarar: Arndís Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar og á facebook viðburði Hystory:

http://www.mak.is/is/vidburdir/hystory

https://www.facebook.com/events/1713196005584455/