ImageHugleikur býður upp á blandaða skemmtidagskrá í Leikhúskjallaranum föstudags- og laugardagskvöld, 11. og 12 nóvember undir nafninu Þetta mánaðarlega, en félagið verður með mánaðarlegar skemmtanir þar í vetur.

Að vanda verða nýir frumsamdir einþáttungar á efnisskránni. Sævar Sigurgeirsson er höfundur þáttarins Bara innihaldið þar sem skopast er með skemmtanamynstur miðaldra Íslendinga. Sævar er einn af öflugustu höfundum félagsins og þátturinn lenti í þriðja sæti í einþáttungasamkeppni Leiklistarvefsins leiklist.is 2002. Vinnan göfgar nefnist þáttur eftir Júlíu Hannam sem hefur vakið athygli undanfarin ár fyrir spennandi tök á stuttverkaforminu. Þessi þáttur fjallar um að því er virðist hversdagslega starfskynningu en tekur fyrr en varir óvænta stefnu.

Tónlist hefur löngum verið áberandi í verkum Hugleiks og fjölmörg tónskáld og flytjendur innan raða félagsins. Hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir er skipuð gamalgrónum hugleiksmönnum, þeim Ármanni Guðmundssyni, Sævari Sigurgeirssyni og Þorgeiri Tryggvasyni. Tónlist þeirra þykir sérkennileg mjög og tónleikar fátíðir. Hér gefst tækifæri til að hlýða á þetta einkennilega band.

Félagið hefur nýlokið upptökum á tónlist næsta stórverkefnis, sem er söngleikjagerð á A Christmas Carol eftir Charles Dickens. Dagskránni lýkur með sýnishornum úr tónlist verksins, en höfundar hennar eru Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason.

Þetta mánaðarlega hefst kl. 22.00. Aðgangseyrir er 1.000 kr.

Meðfylgjandi mynd er úr einþáttungadagskrá Hugleiks í október.