ImageÍ tengslum við sýningu Þjóðleikhússins, Eldhús eftir máli – Hversdagslegar hryllingssögur eftir Völu Þórsdóttur sem byggir á fimm smásögum Svövu Jakobsdóttur, verða fimm Sunnudagskvöld með Svövu þar sem boðið verður upp á fyrirlestur, kvöldverð, leiksýningu og umræður. Þessi kvöld eru í samvinnu við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í kynjafræðum.

Svava Jakobsdóttir hafði með skáldsögum sínum, smásögum og leikritum mikil áhrif á íslenskt menningarlíf og samfélag á ofanverðri tuttugustu öld, en með verkum sínum miðlaði hún meðal annars skarpri sýn á stöðu konunnar í samfélaginu. Með sýningunni Eldhús eftir máli heiðrar Þjóðleikhúsið minningu Svövu. Hún hefði orðið 75 ára í ár, en lést árið 2004.
Sunnudagskvöld með Svövu verða sem fyrr segir fimm. Sunnudaginn 15. janúar heldur Kristín Ástgeirsdóttir, forstöðukona Rannsóknarstofu í kynjafræðum, fyrirlestur undir yfirskriftinni Svava og stjórnmálin, 22. janúar er komið að Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur rithöfundi en hennar erindi nefnist Svava og skáldskapurinn, María Kristjánsdóttir fjallar um Svövu og sviðslistirnar 29. janúar, 5. febrúar er röðin komin að Ármanni Jakobssyni bókmenntafræðingi en hann fjallar um Svövu og samtímann. Vigdís Finnbogadóttir verður með síðasta fyrirlesturinn í þessari röð 12. febrúar og ræðir um Skáldkonuna Svövu Jakobsdóttur.
Fyrirlestrarnir hefjast kl. 18:00, að þeim loknum er boðið upp á léttan kvöldverð fyrir leiksýninguna og í lok hennar umræður. Sunnudagskvöld með Svövu kosta 4.500 krónur.

Leikarar í Eldhúsi eftir máli eru Aino Freyja Järvelä, Kjartan Guðjónsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, María Pálsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Þórunn Lárusdóttir.
Björn Thorarensen kemur nú til starfa við Þjóðleikhúsið í fyrsta sinn sem höfundur tónlistar. Lýsingu hannar Hörður Ágústsson, búninga gerir Katrín Þorvaldsdóttir, höfundur leikmyndar er Stígur Steinþórsson og leikstjóri er sem fyrr segir Ágústa Skúladóttir.