Þegar Múnkhásen sneri heim úr hernum, eftir bardaga í Rússlandi og Tyrklandi, sagði hann ótrúlega skrautlegar og krassandi lygasögur af ævintýrum sínum, þar sem hann átti meðal annars að hafa setið á fljúgandi fallbyssukúlum, ferðast til tunglsins upp baunagras, hrapað inn að miðju jarðar, bjargast úr díki með því að draga sjálfan sig og hestinn með upp á hárinu, snúið úlfi á rönguna, riðið framparti af sundurskornum hesti og unnið ótal önnur ómannleg afrek í bardögum, veiðiferðum og einkalífi.
Aðstandendur sýningarinnar eiga að baki fjölþætta reynslu úr leikhúsi, sjónvarpi, kvikmyndum og tónlist. Aðrar sýningar Ágústu, bæði í Þjóðleikhúsinu og með fjölda atvinnu- og áhugahópa hérlendis og erlendis, hafa jafnan vakið mikla athygli. Hún hefur einnig sett upp nokkrar óperur, nú nýlega hina stórglæsilegu opnunarsýningu Hörpunnar á Töfraflautunni.
Sævar var jafnframt einn af höfundum þriggja síðustu Áramótaskaupa RÚV, en leikstjóri þeirra, Gunnar Björn Guðmundsson (sem einnig leikstýrði kvikmyndunum Astrópíu og Gauragangi) stígur nú á leiksvið aftur eftir nokkurt hlé. Með honum á sviðinu verða stórleikarinn, sjónvarpsstjarnan, barnaefnismaskínan og veiðiklóin Gunnar Helgason, sem vart þarf að kynna; Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem slegið hefur í gegn í kvikmyndum á borð við Mýrina og Borgríki, Áramótaskaupinu 2010 og sem söngstirnið og ólíkindatólið Sylvía Nótt; Magnús Guðmundsson sem meðal annars hlaut Grímutilefningu fyrir leik sinn í Fool 4 love hjá Silfurtunglinu 2008, skaupstjörnurnar Huld Óskarsdóttir og Gríma Kristjánsdóttir og stórsöngkonan Sara Blandon.
Tónlistina semja Ármann Guðmundsson, Eggert Hilmarsson, og Þorgeir Tryggvason en þeir eru allir meðlimir í Ljótu hálfvitunum (ásamt Sævari). Leikmynd gerir Axel Hallkell Jóhannesson, en hann á að baki langan og farsælan feril sem leikmyndahönnuður hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku óperunni og víðar. Lýsingu hanna Súni Joensen og Björn E. Sigmarsson.
Ævintýri Múnkhásens er lygileg sýning fyrir alla aldurshópa, full af ólíkindum, glensi og leikhústöfrum sem fá fólk til að vantreysta eigin augum.
Fyrstu sýningar verða:
Fimmtudagur 22 mars kl 18.00 Frumsýning
Sunnudagur 25. mars kl 14.00
Fimmtudagur 29. mars kl 20.00
Laugardagur 31. mars kl 14.00
Sunnudagur 1. apríl kl 14.00
{mos_fb_discuss:2}