Leikfélag Mosfellssveitar
Andlát við jarðarför
Höfundur: Dean Craig, leikgerð María Guðmundsdóttir og Guðný María Jónsdóttir.
Leikstjóri: Guðný María Jónsdóttir.

Leikfélag Mosfellssveitar fer oft ótroðnar slóðir í verkefnavali sínu og svo er einnig nú. Þau vinna leikhandrit upp úr kvikmynd eða kvikmyndahandriti réttara sagt, Death at a Funeral, breskri gamanmynd frá 2007 sem reyndar hefur verið endurgerð fyrir ameríku líka. Þetta er uppátæki sem oft er reynt hin síðari ár bæði hjá áhugaleikfélögum, menntaskólaleikfélögum og helstu stórleikhúsum hér heima og erlendis. Nærtækt auðvitað að minnast á Fanny og Alexander í því samhengi.

Það er ýmislegt við Dauða við jarðarför sem gerir verkið að álitlegu efni fyrir leiksvið. Það er að mig minnir þó nokkur leikhúsblær á leikstílnum í henni (það sem fólk sem miðar allt við Method-kvikmyndaleikstíl kallar stundum „ofleik“ og lætur fara óþarflega í taugarnar á sér). Verkið gerist að mestu á einum stað (reyndar í mörgum vistarverum á þeim eina stað). Fullt af litríkum karakterum og svo er sögunni auðvitað best lýst sem farsa.

Stórfjölskyldan safnast saman við jarðarför Eðvalds. Eldri sonur hans stendur í skugga reyfarahöfundarins bróður síns, bróðursonur hins látna á í erfiðleikum með að halda viðstöddum frá ofskynjunarlyfjunum sem hann geymir í Valíum-glasi og þegar ókunnur maður kemur með óvæntar fréttir sem gætu raskað þeirri þó litlu hugarró sem ekkjan býr yfir fer allt endanlega af stað.

andlat1Það sem best tekst í þessari sýningu er hve haganlega henni er komið fyrir í Bæjarleikhúsinu. Breitt leiksviðið og nýsmíðaðar svalir gefa kost á því að hafa allar vistarverur hússins fyrir augum okkar allan tímann og skipta hratt milli þeirra með ljósunum einum. Ég held meira að segja að „krossfeidingar“ gætu verið enn snarpari sem myndi bæta í stuðið í farsanum. En heilt yfir eru lausnir snjallar, útlitið sannfærandi og flæðið gott.

Því er samt ekki að leyna að hér er ekki verið að vinna í þeim miðli sem verkið er skapað fyrir. Takturinn i farsanum er bíótaktur, senur eru stuttar og þarf að klippa hratt á milli þeirra, nokkuð sem leikhúsið er ekkert sérlega gott í. Og takturinn er svo mikilvægur til að farsinn virki. Hér eru það fyrst og fremst einstakar kátlegar „sitúasjónir“, hnyttin tilsvör og tilþrif einstaka leikara sem vekja hlátur, sem vel að merkja var tíður og innilegur á frumsýningunni. En farsinn sem slíkur nær ekki flugi.

andlat2Fremstur í skemmtiflokknum fer Stefán Bjarnason sem fær „valíum“ til að róa taugarnar áður en hann hittir tilvonandi tengdaföður sinn og fer á ógurlegu trippi í gegnum sýninguna. Flinkur skopleikari. Þannig er líka hægt að lýsa Maríu Guðmundsdóttur sem hefur eitraðar athugasemdir Rósu frænku algerlega á valdi sínu. Magnús Guðfinnsson og Gunnar Kristleifsson eru síðan bræðurnir í miðju atburðarásarinnar. Þeir mynda sannfærandi og kraftmikla tvennu, og eiga eftir að verða enn betri þegar textahikin verða horfin úr tali þeirra.

Annars er leikhópurinn sem heild eins og vel smurð vél. Sýningin rúllar vel, og Guðnýju leikstjóra hefur tekist að halda lífi í sviðsnærveru þessa stóra hóps sem er allur nánast á sviðinu allan tímann, en tryggja þó að athygli okkar er alltaf þar sem hún á að vera.

Lokaorð: Andlát við jarðarför er ágætis skemmtun, þrátt fyrir þá ágalla að verkið sem heild virki kannski ekki á þann hátt sem því er ætlað eins og áður var sagt.

Þorgeir Tryggvason

{mos_fb_discuss:2}