Um síðustu helgi frumsýndi Leikhópurinn Þíbilja sýninguna SPLIINNG! – Sálarstyrkjandi dagskrá með kryppu í Iðnó. SPLIINNG! er sýning sem fær áhorfandann til að sjá broslegu hliðarnar á þjóðfélagsástandinu. Blanda af söng, sögum úr samtímanum og sprenghlægilegum uppákomum. Upplýsandi og mannbætandi samverustund með kre … uhh… með kryppu. Hugmyndavinnu og handrit unnu Þór Tulinius, Guðmundur Ólafsson og hópurinn.m en um sviðsetningu sá Þór Tulinius.

Leikarar eru Guðmundur Ólafsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir og Höskuldur Sæmundsson en umsjón með tónlist og píanóleik annast Pálmi Sigurhjartarson.

Þetta er lesin og leikin dagskrá þar sem fjallað er, bæði af gamni og alvöru, um atvinnumissi og önnur viðkvæm málefni. Dagskráin er samsett úr ljóðum, textabrotum úr bókmenntum, söngvum, frásögnum úr nútímanum, leiknum atriðum og fróðleiksmolum.

Við erum sviðslistafólk, sem höfum sameinast um að búa til og flytja dagskrá um atvinnuleysisástandið. Við teljum að þjóðin þurfi einmitt að sameinast í því kvíðvænlega ástandi sem kreppan skapar. Þegar þannig árar er hætt við að þeir sem ekki viðurkenna og gangast við óttanum og vanlíðaninni, einangri sig. Ödon von Horvath segir í leikriti sínu Kasímír og Karólína: Kreppan slítur í sundur ástina! Það er vissulega hættan og því brýnt að fólk fái tækifæri til að sjá og greina ástandið eins og það er, að koma auga á vítin sem ber að varast, svo sem einangrun og gremju, og að rækta, þess í stað með sér, samkennd og náungakærleik. Þetta er í fáum orðum markmið okkar með gerð og uppsetningar þessarar dagskrár.

Næstu sýningar eru:
Miðvikudaginn 13. maí kl. 20
Fimmtudaginn 21. maí kl. 20
Sunnudaginn 24. maí kl. 21

{mos_fb_discuss:2}