Leikfélag Selfoss
Hið dularfulla hvarf Hollvinafélagsins
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson

hollvinafelag1Hið dularfulla hvarf Hollvinafélagsins eftir Gunnar Björn Guðmundsson og leikhóp LS er skemmtileg tilraun til að færa íslenskar þjóðsögur og íslenska þjóðtrú í búning leikritsins. Ef verkinu væri léður fallegri endir mætti hugsa sér það sem fræðsluefni fyrir börn og þá ekki síður setja upp á erlendu máli sem sýningu fyrir erlenda ferðamenn sem hingað koma. En óneitanlega þarf að fægja gripinn svolítið áður en lengra er haldið.

Eftir mjög glæsilega byrjun í tónum og látbragði dettur þetta frumsamda leikverk svolítið niður strax í fyrsta kafla. Í stað þess að við fáum söguna til að rúlla og verkið almennilega í gang þá er hægagangur og langur formáli. Fundurinn heima hjá Orra erfingja er samt skemmtilegur en hann má hæglega stytta. Sama er að segja um ýmsan annan undirbúning undir þann meginkafla að persónur leikverksins gangi þjóðtrúnni á vald. Hér er ekkert dregið úr og í bland er hér á ferðinni hryllingsleikhús þó að yfirbragð persónanna beri ekki með sér djúpan ótta eða angist.

Eftir að drykkfelldi hestamaðurinn Jónas skellir á skeið í miðjum fyrri hluta fer verkið á nokkurt flug og er síðan síbatnandi eftir hlé. Dularmögn náttúrunnar, grimmd handanheimsins og skopskyn sagnamenningar komast hér vel til skila. Sömuleiðis hið íslenska kæruleysi sem leiðir ferðalangana út í ógöngur sem engan enda taka.

Af einstökum leikurum er enginn vafi að F. Elli Hafliðason stendur sig sýnu best þar sem hann fer á kostum í hlutverki Móra. Túnsfeðgarnir Bjarni og Guðmundur eiga ágæta spretti og sama má segja um Gunnar Karl í hlutverki Orra og Einar Þorgeirsson í
hlutverki Þormóðs. Tveir leikarar lenda í því erfiða hlutskipti að leika frekar leiðinlegar persónur og gera það mjög vel en eru
fyrir vikið frekar leiðinlegir! Þetta eru grenjuskjóðan Ríkey sem leikin er af Eydísi Ingu Valsdóttur og misheppnaði sagnamaðurinn Halldór Þjóðbjörnsson sem leikinn er af Sigurgeiri Hilmari.

hollvinafelag2Tónlistin verksins er fjörug sígaunamúsík, harmónikutónlist og svo seiðandi panflautumúsík. Tónlistina hefði mátt nota á markvissari hátt. Sígaunatónlistin er skemmtileg en kannski hefði verið betra að velja eitthvað sem var meira í ætt við harmóníkutónlistina sem féll ágætlega að hinu þjóðlega andrúmslofti. Þá fundust mér næturhljóðin ekki vel valin, þau voru greinilega ekki íslensk. Skemmtilegra hefði verið að heyra í íslenskum fuglum en í erlendri spætu. Panflaututónlistin var fín þegar álfarnir birtust og sköpuðu rétta stemnningu fyrir þau atriði.

Sviðsmyndin var nokkuð góð en þó stungu hinir máluðu hólar nokkuð í stúf við fjallahringinn, sem var falleg skuggamynd. Álfakletturinn og fossinn komu líka ágætlega út.

Af þessu má sjá að aðeins vantar uppá að heildarsvipur tónlistar og sviðsmyndar sé nægilega vel unnin. Lýsing var hinsvegar með mestu ágætum og studdi vel við atriðin. Ekkert af því sem hér er sagt ætti þó að verða til þess að fara ekki að sjá stykkið, því í heildina séð er þetta góð og rammíslensk sýning sem vert er að hvetja fólk til að fara á.

Leikendur: Bjarni Stefánsson, Gunnar Karl Ólafsson, Guðmundur Bjarnason, Einar Þorgeirsson, Eydís Inga Valsdóttir, F. Elli Hafliðason, Sara Margrét Magnúsdóttir, Sigríður Hafsteinsdóttir, Sigurgeir H. Friðþjófsson og Stefán Elí Gunnarsson.

Elín Gunnlaugsdóttir

{mos_fb_discuss:2}