„Bullandi reimleikar í Ungó“ er fyrirsögnin á gagnrýni Guðrúnar Höllu Jónsdóttur um sýningu unglingadeildar Leikfélags Dalvíkur. Kverkatak, sem er skrifað og leikstýrt af formanni félagsins Júlíusi Júlíussyni, var frumsýnt 13. nóvember og hefur verið uppselt á allar sýningar síðan. Hér er gagnrýni Guðrúnar Höllu. Bullandi reimleikar í Ungó
Kverkatak er fyrir það fyrsta stórvirki hvernig sem á það er litið, fyrsta verk höfundar í fullri lengd, fyrsta stóra leikstjórnarverk sama Júlíusar og fyrsta stóra unglingaverkið sem LD setur upp svo ég viti til.
Það að ráðast í slíkt stórvirki, að halda leiklistarnámskeið fyrir unglinga sem á síðan að ljúka með fullburða sýningu, er mikil bjartsýni. Að lofa því að skrifa fullburða verk sem sett yrði upp eftir sömu formúlu og önnur verk hjá félaginu, hvort heldur litið er til vinnu við leikmynd, ljós, hljóðmynd, leikskrá, búninga eða annað, og standa við það, ber Júlíusi og Leikfélagi Dalvíkur gott vitni og mun gefa þeim góðan mannskap í þessu unga fólki í framtíðinni. Það eru um 40 krakkar sem taka þátt í sýningunni og þar af helmingurinn á sviðinu. Það sem er svo skemmtilegt við baksviðsvinnu verksins er að vana liðið hefur ekki tekið yfir verkin, heldur hefur umsjón og unglingarnir vinna verkið.
 
Kverkatak fjallar um krakka í litlum bæ úti á landi sem hafa ekki margt við að vera en eru þó langt í frá þjökuð af leiðindum. Þau ákveða að fara saman í útilegu ef leyfi fæst hjá foreldrum og staður finnst „með eldhúsi handa Erlingi“. Staðurinn er gömul verbúð sem pabbi einnar stelpunnar á og er að gera upp. Krakkarnir hittast mikið í sjoppu og stelpan í sjoppunni veit meira en þau um staðinn sem þau ætla á og segir þeim óhugnanlega sögu um verbúðina sem heldur slær á gleði þeirra,- en þau fara samt.

Þessi undirbygging verksins, þar sem við sögu koma krakkarnir sex, þrír strákar og þrjár stelpur, stelpan í sjoppunni, bensíntittur í sömu sjoppu og tveir forkostulegir draugar gerist fyrir hlé en verbúðarsenan er öll eftir hlé. Eftir hlé hittum við fyrir ýmsa karaktera sem villast inn í verbúðina í ýmsum erindagjörðum og smám saman kemur flétta verksins í ljós og gömul mál eru gerð upp. Ég skemmti mér konunglega á Kverkataki og það skal viðurkennt að það er átak að skemmta mér í leikhúsi. Ég hefði þó stundum viljað að höfundurinn Júlíus væri ekki svona náskyldur leikstjóranum Júlíusi, því sum atriði hefði mátt dýpka og sleppa kannski öðrum. Að flestu leyti voru þeir félagar þó í góðum samhljómi og vinnan fín.

Dýpkunin sem ég er að tala um er t.d. í karakter bensíntaumsins Óla sem var frábærlega leikinn af Óskari Jökli Sigurðssyni, hann sést ekkert eftir hlé en hverfur með leyndarmálin sín ósögð inn í dulúðina og það var mikil synd. En Óskar Jökull er mikið leikaraefni sem vonandi mun sjást oft á fjölunum. Auðvitað er leikurinn hjá krökkunum misjafn, textaframburður rann misvel en oftast var vel unnið. Í byrjun var óöryggi í framsögninni, setningar oft með leshljómi en það vaskaðist af og var mun betra þegar á leið. Matargatið Erlingur í höndum Björns Más Björnssonar átti fína spretti og ekki erfitt að sjá hvaðan hann hafði hæfileikana! Þó fannst mér leikstjórinn hafa mátt undirstrika hræðslu Erlings betur með því að láta hann vera meira í áti, t.d. hefði snakkpoki komið vel út í draugaganginum eftir hlé. Og hvar voru pylsurnar sem hann átti að fá í sjoppunni?

Draugarnir Stýr (Eyþór Ingi Gunnlaugsson) og Skip (Friðjón Árni Sigurvinsson) voru flottir, léku vel og gerfin þeirra firnasterk. Samleikur krakkana sex var oft ágætur en stundum heldur stirður og hefði meiri snerting og hreyfing bætt úr. Verbúðarsenan með þeim var t.d. frekar stöð og hefði að ósekju mátt dreifa þeim meira um rýmið. Óvæntu gestirnir voru skemmtilega skornir karakterar og komu allir á óvart, hver á sinn máta. Spreybrúsakallarnir voru óborganlegir með sínar samræmdu pisshreyfingar og aulahúmor, stúlkurnar sætar og settlegar í sinni strákaveiðiferð og svo hinir dásamlegu björgunarsveitarmenn, frábærir allir sem einn! Sjoppuskvísan (Telma Ýr Óskarsdóttir) var skemmtileg og hvíldi vel í sínu hlutverki, virtist hafa tímasetningar vel á valdi sínu og eiga auðvelt með að leika á móti öðrum. Þeir Dóri (Snorri Guðlaugur Jóhannesson) og Svabbi (Gunnar Örn Magnússon) voru flottir félagar og hreint óborganlegir þegar kom að því að ræða um stelpur.
Kverkatak4Leikmynd Kverkataks var stór, flókin og viðamikil, of viðamikil að mínu mati. Herbergi Hennýjar hefði að ég held, vel mátt leysa með fleti fremst á sviðinu öðrum megin og sleppa við þá raunsæismynd sem gefin var þar. Þá fór það í taugarnar á mér að sjá inn í sjoppuna í verbúðaratriðinu en annað var vel gert og verbúðin var skemmtileg, sem og sjoppan sem var raunsönn íslensk. Búningar voru fínir og gerfi drauga og engla eins og áður er sagt mjög flott. En hljóðmynd og lýsing voru bara í einu orði sagt stórkostleg! Pétur Skarphéðinsson ljósahönnuður og hans aðstoðarmenn og Hörður Valsson hljóðhönnuður og hans menn geta svo sannarlega verið stoltir af sínu. Þetta er með því besta í þessum geira sem ég hef upplifað lengi.

En stóra málið er að ég skemmti mér vel, brá stundum, lifði mig inn í og hló oft. Júlíus Júlíusson, unga upprennandi leikhúsfólk og aðrir í Leikfélagi Dalvíkur, til hamingju með sterkt, gott verk og takk fyrir mig.

Guðrún Halla Jónsdóttir