Leikfélag Sólheima: Ævintýrakistan

Höfundur og leikstjóri: Guðmundur L. Þorvaldsson

Undirrituð brá sér ásamt fríðu föruneyti á Sólheima í Grímsnesi til að sjá sýningu Sólheimaleikhússins er nefnist Ævintýrakistan. Leikstjóri er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og er hann einnig höfundur handrits og söngtexta. Verkið er samsett úr þremur þekktum ævintýrum, Gullgæsinni, Stígvélaða kettinum og Brimaborgarhljómsveitinni. Tónlistina samdi Þröstur Harðarson, kokkurinn á staðnum en hann leikur einnig nokkur hlutverk í sýningunni.
Það er alltaf sérstök og yndisleg upplifun að koma á Sólheima. Friðsæld og eindæma veðurblíða virðast einkenna staðinn. Við ferðuðumst í slydduéli og vetrarlegu veðri frá Þorlákshöfn allt þar til komið var á Sólheima en þá var eins við keyrðum inn í vorið, sólskin og mildur blær tók á móti okkur og samstundis leið okkur vel. Það var með nokkurri eftirvæntingu sem við stigum inn fyrir dyrnar á Íþróttaleikhúsinu og komum okkur fyrir í rökkvuðum salnum. Ferðafélagar mínir, tvær sjö ára hnátur tóku strax eftir hempuklæddum manni sem dreifði leikskrám og fóru að velta fyrir sér hvort hann væri í alvöru prestur eða myndi leika slíkan í sýningunni. Þeirri spurningu var svo svarað þegar leið á.
Sviðið var baðað dulúðlegri birtu, í bakgrunni mátti sjá fallega málaðan skóg og til hliðar dularfullan kastala. Sýningin hófst af krafti með skemmtilegum söng þar sem sýningargestir tóku undir með klappi. Á miðju sviðinu var stærðar kista. Upp úr henni spruttu sögumenn fyrir hverja sögu og höfðu stelpurnar sem með mér voru orð á því að þetta væri ótrúleg kista þar sem svo margir kæmust fyrir í henni og veltu því fyrir sér hvernig væri að bíða í kistu allan þennan tíma. Já, töfrar leikhússins eru magnaðir!
Rúmlega helmingur íbúa og starfsmanna Sólheima koma á einhvern hátt að uppsetningunni. Um þrjátíu leikarar eru í sýningunni og fara þau öll vel með sín hlutverk. Þó nokkuð mæðir á Þresti Harðarsyni en hann leikur þrjú stór hlutverk auk þess að spila á hljóðfæri og syngja. Hann samdi einnig tónlistina og er um að ræða grípandi og skemmtileg lög við texta Guðmundar Lúðvíks. Mikill húmor og léttleiki einkenna sýninguna og sjá má á öllum þátttakendum að þeir skemmti sér vel. Við höfðum mjög gaman að útsjónarsama kettinum í glansandi stígvélunum sínum, galandi hananum, hinum stórkostlega töframanni og fallegu prinsessunni. Mamman með plásturinn og synir hennar, hótelstýrurnar í halarófunni á eftir gullgæsinni, vinnufólkið og kóngurinn, gamli maðurinn í skóginum, kötturinn, hundurinn og mafíósalegu ræningjarnir voru einnig stórfyndin og vel leikin að ógleymdum sjálfum prestinum.
Þegar þetta er ritað er aðeins ein sýning eftir, sunnudaginn 30. apríl kl. 14:00. Ég mæli hiklaust með því að fara í sunnudagsbíltúr á Sólheima og sjá þetta skemmtilega verk á meðan tækifæri gefst. Síðan er upplagt að fá sér kaffi og vöfflu á Grænu könnunni.

Magnþóra Kristjánsdóttir.