Leikfélag Hörgdæla
lifid1Lífið liggur við
Leikstjóri: Saga Jónsdóttir

Það var sérkennilegt að ganga inn í gamla samkomuhúsið á Melum s.l. laugardagskvöld. Gengið var inn á gömlu senuna og búið að útbúa svið á miðju dansgólfinu með þrjár sætaraðir á þrjá vegu. Góð hugmynd sem gekk fullkomlega vel upp, svo vel að undarlegt er að engum hafi dottið þetta í hug fyrr. Sem fyrr hjá Leikfélagi Hörgdæla var margt góðra áhugaleikara sem náð hafa undir leikstjórn Sögu Jónsdóttur að skapa skörp skapgerðareinkenni hjá persónum leiksins.

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal skrifar um sýningu Leikfélags Hörgdæla


Bæði kunnugleg og ný andit koma fram á Melum í ár, og skila þau öll góðri vinnu. Fyrst skal nefna þær Stefaníu Elísabet Hallbjörnsdóttur og Fanney Valsdóttur, en báðar eru nú komnar í fremsta flokk meðal áhugaleikara landsins. Ná þær báðar að túlka vel það sem undir liggur í verkinu, það sem liggur undir yfirborðinu, og aðeins kemur fram í nokkrum stikkorðum í tveggja manna tali eða undir áhrifum áfengis. Auk þess er Bernharð Arnarson mjög sannfærandi í hlutverki Þórs, hins léttlynda skrifstofumanns og mótorhjólakappa. Hlátur hans að nánast öllu sem sagt er eða gert er svo smitandi að áhorfendur hlógu um leið og hann byrjaði.

Leikur Sunnu Daggar kom mest á óvart. Stúlkan hefur vaxið svo í persónusköpun frá því að hún sté fyrst á svið í Síldin kemur síldin fer að undrum sætir. Hér höfum við efni í góða leikkonu í framtíðinni, en hlutverk hinnar ljóðelsku Soffíu er lang skemmtilegasta hlutverk sýningarinnar. Ásta Júlía hefur líka þroskað sína leikhæfileika og nær að skila hinni drykkfelldu Völu alveg á leiðarenda, sérstaklega eftir að breytingar verða á henni undir lok sýningarinnar. Nýliðinn í hópnum Arnór Heiðmann nær hinum stressaða Loga ótrúlega vel og verður gaman að sjá hvort hann nær að skila Leikfélaginu frekara framlagi í framtíðinni.

Stefán Jónsson í hlutverki Guðmundar er heldur stífur í sinni túlkun, en nær þó að koma vel til skila þunganum sem undir býr bæði í lífi sínu og starfi. Ekki þarf að taka fram að þau Sesselja Ingólfsdóttir og Þórður Steindórsson skila gömlu hjónunum að vestan af sinni frábæru snilld enda hafa þau bæði fagnað 40 ára leikafmæli sínu, Þórður með þessari sýningu og óska ég honum til hamingju með það.

En hvaða leikrit er þetta, Lífið liggur við! Leikritið er eftir Hlín Agnasrsdóttur og skrifaði hún það árið 1996, en það var fyrst sett upp af Nemendaleikhúsinu árið 2007 undir hennar stjórn. Leikritið er ádeila á yfirborðsmennsku í mannlegum samskiptum og nær höfundur hárfínum dráttum í þeirri ádeilu. Margir geta fundið sjálfa sig í þessu verki, sem nær þó svo hádramatískum sprettum að það nálgast hið yfirnáttúrulega.
Leikmyndin er einföld, en sannfærandi og ljós og hljóð ná að glæða hina einföldu leikmynd lífi.

Enn á ný hefur Sögu Jónsóttur tekist að gera það sem hún gerir best, en það er að ná fram hæfileikum hjá áhugafólki um leiklist og um leið tekst henni að skemmta þeim sem leggja leið sína að Melum til að sjá frábæra sýningu.

Solveig Lára Guðmundsdóttir

{mos_fb_discuss:2}