Áhugaleikhús atvinnumanna frumsýnir JANÚAR, Örverk um áráttur, kenndir og kenjar 28. janúar kl.12.30. Frumsýningin sem fer fram í nýju Gjörningarými Hugmyndahúss háskólanna, ÚGERÐINNI, Grandagarði 16, 2. hæð, verður einnig send beint út í netleikhúsinu Herbergi 408.
JANÚAR er fyrsta verkið í 12 verka röð, Örverk um áráttur, kenndir, sem hvert um sig tekur á áráttum, kenndum og kenjum sem hafa áhrif á mannlega tivist í Reykjavík 2010.
Hvert verk tekur um 5-10 mín. í flutningi og verða verkin frumsýnd kl. 12.30 síðasta fimmtudag í hverjum mánuði allt árið 2010 og sýnd í beinni útsendingu á veraldarvefnum . Viðfang verkanna ræðst af því sem hrærist í samtímanum og hefur áhrif á líf okkar.
Í byrjun árs 2011 verða öll verkin flutt í einu og er þá hið eiginleg verk fullskapað og tekur það um 90-120 mínútur í flutningi.
Verkin verða flutt í ÚTGERÐINNI og send út í beinni útsendingu á www.herbergi408.is, þar sem verkin verða vistuð og öllum aðgengileg út árið.
Ókeypis aðgangur.
Janúar
Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Ólöf Ingólfsdóttir
Leikstjóri: Steinunn Knútsdóttir
Bein útsending og tæknistjórn: Hákon Már Oddsons & útskriftarnemar listnámsbrautar Borgarholtsskóla.
Nánari upplýsingar veitir Steinunn Knútsdóttir 6624805.
Hugmyndafræði Áhugaleikhúss Atvinnumanna:
Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur atvinnufólks í sviðslistum sem hefur áhuga á frelsi til óháðrar listsköpunar í leiklist. Áhugleikhús atvinnumanna lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi. Markmiðið með starfinu er að að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Leikhúsið vill ekki fara í viðskiptasamband við áhorfendur sína og býður þess vegna áhorfendum í samtal án endurgjalds og þiggur ekki aðgangseyri á sýningar sínar. Áhugaleikhús atvinnumanna telur að með því að bjóða áhorfendum endurgjaldslaust að sjá sýningar leikhússins geti hugsanlega myndast hópur leikhúsáhorfenda sem kynnst hefur leiklist sem er fjarri þeirri markaðsleiklist sem finna má hjá þeim stóru leiðandi leikhússtofnunum sem bera ábyrgð á rekstri stórra bygginga og eru með hundruðir listamanna og leikhúsfólks á framfæri sínu.
Leiklist áhugaleikhússins er unnin með afstöðu myndlistarinnar þar sem verkið lýtur sínum lögmálum og spyr ekki kóng nér prest um hvað selst eða ekki.
Áhugaleikhús atvinnumanna hefur áhuga á leiklist sem er til í tala til sinna áhorfenda án þess að verða meðvirk.
Öll umgerð sýninganna er einföld og allt efni sem notað er í sýningarnar eru notað, gefins og lánað enda er markmið leikhússins að gera sem mest með sem minnstum tilkostnaði. Heimspeki leikhússins er að hugvit og sköpunargáfa sé stærsta verðmæti sem heimurinn á og leggur því áherslu á að launa listamenn sína fyrir hugvit og sköpun. Þannig má segja að Áhugleikhús atvinnumanna sé “fátækt leikhús” í veraldlegum skilningi en “ríkt leikhús” í listrænum skilningi. Hópurinn hefur fengið aðstöðu í nýju gjörningarými Hugmyndahúss háskólanna á Granda sem verður tekið í notkun í byrjun árs 2010 og er þar í samstarfi við Herbergi 408 sem er nýtt netleikhús sem opnað verður nóvemeber 2009 og er fyrsta leikhúsrými sinnar tegundar.