Í október síðastliðinn sýndi leikhópurinn Sómi þjóðar, í samstarfi við Norðurpólinn, nýja íslenska leikverkið Gálma. Vegna anna leikara voru sýningar á verkinu fáar (Hilmir Jensson hóf á þessum tímapunkti atlögu að Íslandsmeti í fjölda búningaskipta í einni sýningu í Vesalingunum, Bjartur Guðmundsson hvarf inn í söngleikja-paradísina í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ, og Tryggvi Gunnarsson fékk olíupeninga til að setja upp mjög svo óhefðbundna danssýningu í Þrándheimi). Pláss var fyrir 40 manns á hverja sýningu á Gálmu, en á lokasýningu var setið í hverju sæti og staðið í hverju horni. 110 manns sáu þessa lokasýningu, en fjöldi þurfti því miður frá að hverfa. Nú er komið að því að bæta úr og hefja sýningar á Gálmu aftur 13. mars í Norðurpólnum.

 

Þrír vinir koma saman á síðsumarkvöldi til að skemmta sér. Sveitarómantíkin ræður ríkjum, glösin eru full og framtíðin er björt. Fjórði gesturinn bætist í hópinn, óboðinn. Grímuklæddur byrjar hann að segja sögur. Sögur sem þarf að segja, en á sama tíma væru þær ef til vill betur ósagðar. Uppgjör er óumflýjanlegt. Uppgjör milli vina, uppgjör við íslenskan þjóðrembing og uppgjör við hina lífseigu, innlendu sveitarómantík sem gerir heiðarleika vonlausan og sannleikann bjagaðan í besta falli. Einhver hefur alltaf hag af sannleikanum, annars væri hann til einskis nýtur.

Leikið er með sagnaarf íslendinga og þjóðsögur Jóns Árnasonar, barist er með orfum, frumsamdir drykkjusöngvar í fimmundum óma er heimabruggið rennur ljúflega niður kverkar. Sviðið afmarkast af áhorfendum annars vegar og rekaviði og gömlum suðurlands-gaddavír hinsvegar, og leikið er til þrautar þar til sannleikurinn kemur í ljós, – eða hann er kveðinn niður eins og hver annar fortíðardraugur.

Gálma er skrifuð af Tryggva Gunnarssyni.

Sýningar eru 13. og 27. mars, og 2. apríl.
Sýningar hefjast kl. 20.00
Miðasala á midi.is og í síma 561-0021
Miðaverð er 2.500 kr.