Leikritunarsjóður LR eflir fjölbreytni og nýsköpun í íslenskri leikritun.

Jón Gnarr leikari, skáld og þúsundþjalasmiður, hefur verið valinn leikskáld Borgarleikhússins árið 2010 úr stórum hópi umsækjanda. Jón mun starfa í Borgarleikhúsinu næsta ár þar sem hann mun sinna ritstörfum.

Markmið með ráðningu leikskálds á vegum Leikritunarsjóðsins er að laða hæfileikaríkt fólk að leikhúsinu, kynna því leikhúsformið og efla þannig íslenska leikritun. Stefnt er að því að Jón riti leikverk, eitt eða fleiri, á tímabilinu með uppsetningu í Borgarleikhúsinu í huga. Hann verður hluti af starfsliði hússins allt tímabilið og fær aðgang að allri starfsemi leikhússins.

Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur réð fyrsta leikskáldið, Auði Jónsdóttur rithöfund, í upphafi ársins 2009 og er hún því að ljúka sínum árssamningi. Stefnt er að uppsetningu á nýju leikriti Auðar á næsta leikári.