Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Beisk tár Petru von Kant eftir Rainer Werner Fassbinder laugardaginn 4. september. Fassbinder, einn af þekktari kvikmyndaleikstjórum Þjóðverja, var fjölhæfur listamaður sem virðist hafa fengið leikritunardellu á árunum 1968 til 1971 þegar hann skrifar flest leikrita sinna. Af þeim eru Beisk tár Petru von Kant með þekktari.
Leikritið vakti mikil viðbrögð þegar það var sýnt fyrst, aðallega vegna opinskárrar sýnar á samkynhneigð kvenna. Það sjónarhorn á verkið hefur með tímanum mikið til misst slagkraft sinn og Lárus Vilhjálmsson leikstjóri fer sennilega rétta leið með því að leggja ekki sérstaka áherslu á þann þátt verksins. Það sem eftir stendur er saga um ást og ástarsorg og þó kannski fyrst og fremst ástarvald eða hvernig ástin er notuð af þeim elskuðu til að kúga þá sem elska og hvernig ástarvaldið er notað sem tæki til að ná frama í lífinu. Verkið er að mati þess sem hér skrifar ekki ýkja merkilegt í sjálfu sér en þó er ekkert sem segir að ekki megi gera sterka og áhrifamikla sýningu úr því. Saga Petru og óendurgoldinnar ástar hennar hefur burði til að snerta streng í brjósti áhorfenda en því miður nær hún því ekki í þessari sýningu LH.
Til að sýningin nái til þeirra sem á horfa er nauðsynlegt að þeir trúi því að þær tilfinningar sem leikararnir tjá séu sannar. Aðallega á þetta við um persónu Petru enda speglast líf og tilfinningar annarra persóna í henni. Til að sýningin virki, til að áhorfendur séu reiðubúnir að undirgangast vald leikhússins, þarf því sterka leikkonu í hlutverk Petru, leikkonu sem hefir það á valdi sínu að sýna sterkar og djúpar tilfinningar. Áhorfandinn verður að trúa því að Petra virkilega girnist líkama Karinar, að hún upplifi afl nýkviknaðrar ástar í brjósti sér og síðar að hún líði kvalir og angist óendurgoldinnar ástar. Slíkt hrista leikarar ekki fram úr erminni og gildir einu af hvaða tagi þeir eru. Petra þeirra Hafnfirðinga, leikin af Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, nær ekki að verða slík persóna og það hefur bein áhrif á alla þætti sýningarinnar sem snýst jú um persónu Petru. Helst var að undirritaður tryði þeirri Petru sem hreytti ónotum í dóttur sína en sú Petra sem girntist, elskaði og örvænti, risti of grunnt til að hafa áhrif. Samband Petru og Karinar sem Aldís Davíðsdóttir leikur, varð þar af leiðandi aldrei nægjanlega sannfærandi. Þar hefði mátt eyða mun meiri tíma og vinnu í að ná því úr leikurunum sem þarf til að glæða persónurnar lífi og trúverðugleika.
Þrátt fyrir að grundavallaratriði bregðist, eins og að ofan er sagt er þó ýmislegt gott í sviðsetningunni. Sýningin á inn á milli góða spretti þar sem flæði hennar er gott og áreynslulítið. Undirritaður hefði þó viljað sjá meiri tempóbreytingar, meiri hæðir og lægðir í framsetningunni sem stundum var full einhæf. Hugmyndin að baki skiptinga milli atriða var góð en skiptingarnar hefðu þó mátt vera styttri og hnitmiðaðri. Engu að síður gáfu þær skemmtilega innsýn í hugarheim og líf hinnar kúguðu Marlene sem Sigríður Hafdís Benediktsdóttir náði að gera að skýrri og eftirminnilegri persónu í sínum þögla leik.
Umgjörð sýningarinnar var einföld og smekkleg og þjónaði að mestu tilgangi sínum og sama má segja um búninga. Lýsing og hljóð voru vel unnin og studdu sýninguna. Í ljósi þess að verkið hefur verið fært til nútímans vakti hið klunnalega Bakelite símtæki athygli undirritaðs og spurning hvort leikkonunum hefði ekki reynst auðveldara að eiga við léttara og meðfærilegra tæki. Fassbinder kvikmyndaði verkið árið 1971 og gerði þá breytingar á endinum frá sviðsverkinu. Eftir því sem undirritaður kemst næst kýs Lárus leikstjóri að nota kvikmyndaendinn og má svo sem færa rök fyrir því að hann sé áhrifameiri.
Sá er þetta ritar lét að lokinni sýningu á Hamskiptunum í vor í ljósi aðdáun sína á því hugrekki Leikfélags Hafnarfjarðar, að setja upp nokkur krefjandi nútímaverk á stuttum tíma eins og ætlunin er að gera. Eftir þessa sýningu stingur spurningin upp kollinum hvort öðruvísi verkefnaval hefði verið skynsamlegra. Að líkindum hefði það verið auðveldara félagið og borið með sér minni áhættu en samt sem áður er ekki hægt annað en að dást að þeirri allt að því óskammfeilnu afstöðu sem birtist í verkefnavalinu og framkvæmd uppsetninga. Sá sem óttast mistök kemur engu í verk og nær aldrei árangri. Undirritaður trúir því og vonar, að það sjálfstraust og sú sköpunargleði sem birtist í starfsemi LH þessi misserin muni á endanum skila sér margfalt. Það gerist þó aðeins ef aðstandendur félagsins skilja að slíkt gerist ekki á morgun og að í þessu ferli er þolinmæðin dyggð.
Hörður Sigurðarson