Leikfélag Keflavíkur sýnir um þessar mundir söngleikinn Hin illa dauðu sem byggður er á kvikmyndunum góðkunnu Evil dead, Evil dead 2 og Evil dead 3. Leikstjóri sýningarinnar er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson. Hörður S. Dan brá sér á sýninguna og hér má fræðast um hvernig hann upplifði hana.
Til að byrja með er vert að nefna þýðingu verksins, en leikhópurinn sá um hana. Nú veit ég ekki hver samdi verkið upphaflega en lokaniðurstaðan er þrælskemmtilegur texti.
Leikritið byrjaði rólega, var það sísti parturinn í verkinu, en mjög fljótlega byrjaði spennan og kolsvarti húmorinn að sýna sitt rétta andlit. Voru oft æðisleg augnarblik í verkinu þar sem undirritaður átti erfitt með að hemja hláturinn. Aldrei fékk maður nóg. Þótt þemað hafi verið það sama í gegnum allt verkið (kantónískir djöflar að taka yfir heiminn, þó innan þeirra reglna er súrar B splatter myndir hafa sett í gegnum tíðina) Þá leiddist manni aldrei. Var gert stólpagrín bæði af djöflum, og söguþræðinum sjálfum. Má þar nefna djöful hundrað og eitt, sem var samkvæmt verkinu bara ekki nógu stórt hlutverk til að drepa aðalsöguhetjuna, fyndin og afar hugljúfur söngur sem sú ófreskja fékk að syngja.
Leikstjórn Guðmundar Lúðvíks Þorvaldssonar var góð. Í byrjun fannst mér allt vera heldur einfalt, en svo var verkið mikið í þeim anda, það gerði það fyndnara að sýna leikhúsið viljandi og platið þar á bakvið. Afsagað höfuð var augljóslega dúkkuhaus, og hauslausa manneskjan var fyndnari en andskotinn. Þetta bjó til skoplegan léttleika sem einkenndi verkið.
Leikarar skiluðu sínu með ágætum. Söngurinn var fínn, er mér þá minnisstæður söngur Önnu (leikin af Höllu Karen) um hrakfarir hennar í ástarmálum og söngur Jóns (leikin af Gústav Helga). Var mikil orka í þeim öllum og var erfitt að láta sér leiðast enda var leikgleðin höfð í fyrirrúmi og það er alltaf gaman að sjá það á sviði. Það var eitt sem var þeim öllum helst til trafala, það var hversu óskýr framburður var, átti það við um alla leikarana. Kannski það stafaði af hversu mikið var öskrað, nú eða að þau hefðu þurft að taka betur um orðin. Allavega heyrðist oftar en einu sinni frá saklausum áhorfanda hvað sagði hún/hann/það?
Leikmyndin var fín, setti stemninguna og gerði sitt gagn. En sigurvegari kvöldsins (ef við erum á einhvern hátt að veita verðlaun) eru án efa ljósin. Hvort sem það var til að merkja innkomu ógurlegrar illsku eða byssuskot, þá voru þau áberandi. Fannst mér gaman að sjá hversu vel þau voru notuð fyrir allskonar skiptingar og hamagang á sviðinu. Björn Elvar hefur unnið gott verk þarna og tek ég að ofan fyrir honum. Má ekki gleyma að nefna hljóðið í þessu samhengi, það var oft í góðu samræmi við ljósin.
Sumsé þrælskemmtileg sýning sem ég mæli með að allir með svartan húmor og áhuga á smá blóði ættu endilega að sjá.