Við erum stödd í Logalandi í Reykholtsdal. Hinu gamla en margstækkaða félagsheimili hefur verið umturnað og því breytt í sögusvið kráarinnar Jokers & Kings í London þar sem saga Jónasar Árnasonar af Jörundi hundadagakonungi var sögð á frumsýningu síðastliðið föstudagskvöld.
Þannig hefst gagnrýni Magnúsar Magnússonar á leiksýninguna Þið munið hann Jörund sem Umf. Reykdæla sýnir um þessar mundir á 100 ára afmæli félagsins. Pistillinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar.
Fjörleg sýning unnin úr góðum efniviði
Við erum stödd í Logalandi í Reykholtsdal. Hinu gamla en margstækkaða félagsheimili hefur verið umturnað og því breytt í sögusvið kráarinnar Jokers & Kings í London þar sem saga Jónasar Árnasonar af Jörundi hundadagakonungi var sögð á frumsýningu síðastliðið föstudagskvöld. Þegar salurinn er opnaður gestum taka leikarar á móti þeim, heilsa og blanda geði í fullum skrúða. Snjöll leið til að gefa áhorfendum kost á að tengjast strax hinum fjölbreyttu persónum sem brátt taka völdin og ekki síður til að viðra sviðsskrekk, ef einhver hefur verið, af leikfólkinu.
Sögusviðið er marsmánuður árið 1810 og Evrópa er undirlögð af Napóleonsstríðunum. Leikhópur kráarinnar sýnir gestum sagnfræðilegt drama um ungan Dana, Jörgen Jörgensen sem hélt til Íslands í júlí 1809 til að kaupa af Íslendingum tólg sem nota skyldi í sápu handa breska aðlinum. Undarlegir atburðir verða til þess að hann setur af hinn danska Trampe greifa, gúvenor yfir Íslandi, og leggur landið undir sig fyrir hönd bresku krúnunnar og tekur sjálfur konungstign yfir Íslandi. Jörgen Jörgensen, eða Jörundur ríkti hér á landi í sex vikur um hundadagana árið 1809 og fékk við það viðurnefnið Hundadagakóngur. Jónas Árnason tekur sér í verkinu skáldaleyfi, fer frjálslega með staðreyndir og kemur á gamansaman hátt frá sér þessari mögnuðu sögu af fyrstu kynnum Íslendinga af sjálfstæði. Verkið, sem fyrst var sýnt í Iðnó árið 1970, hefur æ síðan verið eitt vinsælasta hérlenda leikverkið. Jónas orti fyrir það mörg ljóð við írsk og skosk lög sem fyrir löngu eru orðin samofin íslensku þjóðarsálinni og krydda sýninguna svo um munar. Má þar nefna Arí dúarí dúra dei, Hífum í bræður, Barbara Riley og hið hugljúfa vöggulag Bíum bíum bambaló.Leikgerð Jörundar nú er eftir Guðmund Inga Þorvaldsson, sem jafnframt leikstýrði verkinu. Honum tekst á býsna skemmtilegan hátt að gæða hana nýju lífi í samanburði við eldri uppfærslur. Leikhúsið er nýtt í hörgul og áhorfendur eru vel tengdir viðfangsefninu þar sem leikurinn fer fram á tvo vegu í salnum. Mikið hefur verið lagt upp úr búningum allt frá síðkjól Fraukenarinnar og niður í bremsufarið í brókum Sir Walters Raleigh.
Það var ánægjuleg stund að upplifa stemninguna sem Guðmundi Inga og hálfu hundraði leiklistaráhugafólks víðsvegar úr uppsveitum Borgarfjarðar tókst að skapa í Logalandi. Ekki fer á milli mála að mikill metnaður hefur verið lagður í verkefnið og ekki hefur spillt fyrir að kjarni leikfólks er hokinn af reynslu frá fyrri tíð. Að þessu sinni voru þó einnig kallaðir til aðstoðar leikarar úr nágrannasveitum enda um mannfrekt verk að ræða. Má þar nefna hjónin á Gullberastöðum sem bæði fara á kostum; Kari Berg sem Lady Beth og Sigurður bóndi sem hinn lævísi Stúdíósus. Þá er Jörundur sjálfur í höndum Arnoddar Magnúsar Danks, leikara sem ferst túlkun á hinum seinheppna Jörundi lipurlega úr hendi. Þá fóru þrír bræður frá Geirshlíð vel með sín hlutverk eins og jafnan áður, en mest mæddi á hinum mjög svo laskaða Charlie Brown; eineygðum, einfættum og með krók í stað hægri handar. Með hlutverk Charlie, sem vissulega er annað aðalhlutverk leikritsins, fer Jón Pétursson í Björk og ferst það afar vel úr hendi. Þá túlkar Linda Björk Pálsdóttir mjúklega hina óframfæru Dala Völu sem heillar Jörund.
Söngur og hljóðfæraleikur gegnir mikilvægu hlutverki í Jörundi. Tríóið er vel skipað þeim Þorvaldi í Brekkukoti, Hildi á Skálpastöðum og Jóni frá Staðarhrauni sem leiða söng og taka undir með helstu leikurum þegar þarf, en fleiri spila undir á hljóðfæri á bak við tjöldin og gefa tónlistinni þá fyllingu sem þarf. Við uppfærsluna var einnig leitað til yngra fólks víða úr héraðinu sem margt er að stíga sín fyrstu skref á sviði í hlutverkum Íslendinga, matrósa og hnátanna geðþekku. Að öllum ólöstuðum kryddar þátttaka þessa unga fólks sýninguna afar skemmtilegu og fersku yfirbragði. Má nefna fiðlu- og flautuleikarann Pétur Björnsson frá Hvanneyri og Laddie sem Logi Sigurðsson túlkar lipurlega. Fleira ungt fólk sýnir snilldartakta og er óhætt að nefna Þorstein á Steindórsstöðum, Helga í Reit, Höskuld í Stóra Ási og síðast en ekki síst Kristrúnu á Laxeyri sem að mati undirritaðs var senuþjófur kvöldsins í hlutverki Fraukunnar. Á þetta unga fólk vonandi allt eftir að láta meira að sér kveða á leiklistarbrautinni.
Þessi blanda reynslufólks í leiklist og ungu kynslóðarinnar nýtur sín vel á fjölunum í Logalandi. Ég vil óska Ungmennafélagi Reykdæla og öllum aðstandendum þessarar sýningar hjartanlega til hamingju. Þeim hefur enn á ný tekist vel upp við að skapa gott verk, að þessu sinni með góðum efniviði sem Jónas gerði á sínum tíma ódauðlegt með Jörundi. Þetta er vissulega veglegt afmælisverk á aldarafmæli og margar stundir sem liggja að baki við undirbúning og æfingar. Vil ég hvetja Vestlendinga nær og fjær til að gera sér ferð í Logaland nú á útmánuðum og samgleðjast með afmælisbarninu.
Magnús Magnússon