Leiklistarsamband Íslands tilnefndi í dag Bjarna Jónsson til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir leikritið Óhapp! sem frumflutt var síðasta haust á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins í leikstjórn Stefáns Jónssonar. Uppsetningin hlaut afar góð viðbrögð áhorfenda jafnt sem gagnrýnenda, sem lofuðu verkið og sýninguna.

Leiklistarvefurinn upplýsir með stolti að Bjarni er einn af kennurum Leiklistarskóla Bandalagsins í júní nk. og sendir honum innilegar hamingjuóskir!

Norrænu leikskáldaverðlaunin eru veitt á Norrænum leiklistardögum sem haldnir eru annað hvert ár, að þessu sinni í Tampere í Finnlandi 4. – 10. ágúst nk.

 

Dómnefndina skipuðu Sveinbjörn I. Baldvinsson rithöfundur og formaður nefndarinnar, Hallmar Sigurðsson leikstjóri og Silja Aðalsteinsdóttir ritstjóri. Valið stóð á milli þeirra sviðsverka sem frumflutt voru á síðustu tveimur árum, samkvæmt reglum Norræna leiklistarsambandsins.

Í áliti dómnefndar segir:

„ÓHAPP! er magnaður samtíðarspegill þar sem höfundur leitast við að fanga andrúm þeirra tíma sem við lifum á. Hann leiðir saman andstæðurnar milli þess veruleika sem við hrærumst í og þeirrar myndar af veruleika sem birtist okkur í dægurþáttum í sjónvarpi og í gerviheimi sjónvarpssápunnar. Úr verður spennandi samruni þessara þátta sem saman mynda þann reynsluheim sem við þekkjum öll, hins áþreifanlega veruleika, þess hvernig sá raunveruleiki er framreiddur á öldum ljósvakans og loks snúið í æsandi sjónvarpsdrama.
Hinn mannlegi harmleikur sem frásögn verksins hverfist um skín þannig í gegnum allt umstangið eins og opið sár sem fær vissulega ómælda athygli, en engan frið til að gróa.
Það óskar þess kannski enginn að horfast í augu við það, en þetta er ekki síst erindi verksins við okkur og list höfundar í því fólgin að koma því á framfæri í skemmtilegu leikhúsverki sem býr yfir mörgum nálgunarmöguleikum.“ 

Norrænu leikskáldaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1992 þegar Hrafnhildur Hagalín var fyrst norrænna leikskálda til að hljóta þau. Fékk Hrafnhildur verðlaunin fyrir leikrit sitt Ég er meistarinn, sem frumflutt hafði verið af Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og verið sýnt þar við fádæma vinsældir. 

bjarnijo.jpgBjarni Jónsson er fæddur á Akranesi árið 1966.  Hann útskrifaðist stúdent frá Fjölbrautaskólanum á Akranesi og vann margvísleg störf til sjós og lands áður en hann flutti til München þar sem hann lauk námi í leikhúsfræði, nútímasögu og norrænum fræðum frá Ludwig-Maximillians Universität árið 1992. Hann hefur verið búsettur í Reykjavík frá árinu 1994 og starfað sem leikskáld, dramatúrg og þýðandi, m.a. fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið, Leikfélag Íslands, Ríkisútvarpið og EGG-leikhúsið.

Meðal leikritaþýðinga Bjarna má nefna Eftirlaunin e. Thomas Bernhard, Shopping & Fucking e. Mark Ravenhill; Glerdýrin e. Tennessee Williams, Dýrlingagengið (bash) e. Neil LaBute, Klavígó e. J. W. Goethe og Herra Kolbert e. David Giselmann.  Hann hefur einnig þýtt skáldsögur, þeirra á meðal Blikktrommuna e. Günter Grass, Ég heiti Henry Smart e. Roddy Doyle, Pobby og Dingan e. Ben Rice og Hermaður gerir við grammófón e. Sasa Stanisic.

Bjarni hefur unnið leikgerðir fyrir útvarp og eru eftirfarandi þeirra á meðal: Sú gamla kemur í heimsókn e. Dürrenmatt; Sölumaður deyr e. Miller; Dáið er alt án drauma upp úr skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness, Barni náttúrunnar; Ævinlega eftir samnefndri sögu Guðbergs Bergssonar; Svefnhjólið sem byggir á skáldsögu Gyrðis Elíassonar, Hinn íslenski aðall, eftir skáldævisögu Þórbergs Þórðarsonar, Hinn eini sanni Henry Smart e. sögu Roddy Doyle.

Bjarni hefur einnig leikstýrt í útvarpi og tvisvar hlotið tilnefningu til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, fyrir leikstjórn í útvarpi; árið 2005 fyrir verkið Líf eftir Jon Fosse og árið 2006 fyrir Einhver í dyrunum eftir Sigurð Pálsson. Bjarni hlaut norrænu útvarpsleikhússverðlaunin 2004 fyrir Svefnhjólið sem hann leikstýrði í samvinnu við hljómsveitina m ú m og Hjört Svavarsson.
Leikrit Bjarna eru: Korkmann, sem hlaut 2.–.3 verðlaun í leikritasamkeppni LR 1989 og var leiklesið í Þjóðleikhúsinu 1992; Mark, sviðsett af Skagaleikflokknum 1994; Kaffi sem Þjóðleikhúsið sýndi á Litla sviðinu veturinn 1998, en uppsetning leikhússins var sýnd á evrópsku leikritahátíðinni Bonner Biennale sama sumar og leikritið flutt í Vesturþýska útvarpinu í Köln árið 2000. Verkið var tilnefnt fyrir Íslands hönd til norrænu leikskáldaverðlaunanna árið 2000; Vegurinn brennur, sýnt á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins veturinn 2004; Híbýli vindanna , byggt á samnefndri sögu Böðvars Guðmundssonar, sýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins veturinn 2005; Lífsins tré, byggt á samnefndri sögu Böðvars Guðmundssonar, sýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins haustið 2005.

Bjarni Jónsson vinnur nú að nýju leikriti fyrir Leikfélag Akureyrar.

ATH:  Nú um páskana flytur Útvarpsleikhúsið á Rás 1 nýjan þríleik sem Bjarni hefur skrifað fyrir útvarp; BESTI VINUR HUNDSINS, 1.leikrit: Lykillinn flutt á Skírdag, 2. leikrit: Endasprettur flutt á Páskadag og 3. leikrit: Spunakonan flutt annan dag páska, –  alla dagana kl. 15:00.