Útsendari okkar fór á frumsýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar um helgina og ritar sitt álit:

"Leikfélag Hafnarfjarðar á 70 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni afmælisins ákvað stjórn þess að setja upp að nýju Ráðskonu Bakkabræðra, vinsælasta leikrit sem þar hefur á fjalir komið. Sú sýning var sett upp í lok seinni heimsstyrjaldar og að sögn voru vinsældir þess svo miklar að "… fólk gerði sér far úr Reykjavík til að standa í biðröð í tvo, þrjá tíma" eftir miðum. Ráðskona Bakkabræðra er dæmigert barn síns tíma og spyrja má hvaða erindi þetta leikverk á við okkur í dag."

hafnarfj.logo.jpg Leikfélag Hafnarfjarðar
Ráðskona Bakkabræðra eftir Oskar Braaten
Leikstjóri: Lárus Vilhjálmsson
Sýnt í Lækjarskóla

 

Leikfélag Hafnarfjarðar á 70 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni afmælisins ákvað stjórn þess að setja upp að nýju Ráðskonu Bakkabræðra, vinsælasta leikrit sem þar hefur á fjalir komið. Sú sýning var sett upp í lok seinni heimsstyrjaldar og að sögn voru vinsældir þess svo miklar að "… fólk gerði sér far úr Reykjavík til að standa í biðröð í tvo, þrjá tíma" eftir miðum. Ráðskona Bakkabræðra er dæmigert barn síns tíma og spyrja má hvaða erindi þetta leikverk á við okkur í dag. Hvorki efni, efnistök né framsetning leikritsins sjálfs bera nokkuð með sér sem höfðað getur til fólks á okkar tímum nema þá sem forvitnileg söguleg stúdía.

hreppstjori.jpg

Leiklistin er í stöðugri þróun og á það við um alla þætti hennar. Leikstíll hefur t.d. mikið breyst í gegnum tíðina eins og augljóslega má sjá þegar horft er á gamlar kvikmyndir. Ekki er eins auðvelt að sjá þær breytingar sem átt hafa sér stað á leiksviðinu enda heimildir af skornari skammti. Þó má ganga út frá því að þar hafi þróunin verið sambærileg við það sem gerst hefur á hvíta tjaldinu. Í huga nútímamannsins einkenndust leiksýningar á öndverðri síðustu öld af yfirdrifnum leik, viðamiklum leikmyndum og ofnotkun á farða. Myndir frá sýningum þessa tíma styðja a.m.k. það tvennt síðarnefnda. Það er auðvelt að glotta út í annað af hófstilltu yfirlæti þegar maður ber saman leiklist á Íslandi fyrir miðja síðustu öld og leiklist í dag. Það ætti þó að slá aðeins á yfirlætið að hugsa til þess að eftir hálfa öld mun ýmislegt í leiksýningum okkar tíma vafalaust koma leiklistaráhugamönnum þess tíma, spánskt fyrir sjónir.

Fyrir nútímamanninum er Ráðskona Bakkabræðra sem sagt ansi klént leikverk og heldur barnalegur samsetningur svo ekki sé meira sagt. Verkið er skrifað á fyrri hluta síðustu aldar og aldurinn leynir sér ekki. Sem gamanleikur er það algerlega misheppnað nú á tímum. Gamansemin sem skrifuð er inn í verkið er aulafyndni af verstu gerð, samtöl eru jafnan hjákátleg og söguþráðurinn barnalegur. Slíkt má svo sem einnig segja um marga nýrri gamanleiki en Ráðskona Bakkabræðra skilur þá eftir í rykinu hvað þetta varðar. Þegar upp er staðið snýst leiksýningin þó ekki um þetta enda hefði þessi umfjöllun þá tæpast verið meira en nokkurra setninga virði.

Ef leikritið hefði verið tekið nútímalegum tökum er enginn vafi að sýningin félli kylliflöt. Leikstjóri fer þá einu leið sem fær er, sem sé að nota þann stíl sem giska má á að hafi tíðkast þegar það var fyrst sett upp. Þessa sér stað hvort sem er í leikstíl, förðun eða leikmynd svo eitthvað sé talið. Leikmyndin hallast að natúralisma en mögulega hefði mátt ganga enn lengra í þá átt til að halda þeirri heildarhugmynd sem lagt er upp með. Veggir skulfu og titruðu þegar við þá var komið og gluggapóstar gáfu eftir við minnstu snertingu. Þar hefði jafnvel mátt leyfa sér að leika enn meira með hlutina. Förðunin var sérlega vel misheppnuð eins og vera bar, yfirdrifin og grótesk og engu líkara en að húsamálari hafi séð um hana. Leikstílinn bar að sama brunni, yfirdrifinn og ofboðslegur sem hann var á köflum. Þó inntak handrits haldi sér að mestu, leyfa aðstandendur sér að hafa gaman að efniviðnum og skopast með hann ábyrgðarlaust, oft með býsna góðum árangri. Áhorfendur í Gúttó í gamla daga hefðu vafalaust sopið hveljur yfir ýmsu því sem sást á sviðinu en hefur tæplega staðið skrifað í handriti. Áhorfendur á frumsýningu í Lækjarskóla hafa líka vafalaust stundum hlegið á öðrum stöðum en gert var í Gúttó í den. Það var nefnilega töluvert hlegið og áhorfendur virtust skemmta sér vel yfir sjónleiknum.

bakkabraedrfors.png Það sem gerir útslagið með að sýningin nær flugi er sterkur leikur í burðarhlutverkum. Í hlutverkum bræðranna á Bakka eru þau Halldór Magnússon, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og Dýrleif Jónsdóttir og skila þau sínu með mikilli prýði. Samleikur þeirra bræðra var jafnan góður og á köflum frábær. Kristín Rós Birgisdóttir lék ráðskonuna Gróu og skilaði henni af þeim myndugleik sem þurfti. Hörður Skúli Daníelsson átti magnaða ofleiksspretti í hlutverki hins óskilgetna Axels. Afar vel útfærður leikur hjá honum. Þráinn Óskarsson átti ágæta spretti sem hreppstjórinn og Júlíus Freyr Theodórsson sömuleiðis í hlutverki Thorlacius. Í örðum hlutverkum sem buðu svo sem ekki upp á mikil tilþrif voru Guðrún Sóley Sigurðardóttir í hlutverki Hildar, Rakel Mjöll Guðmundsdóttir í hlutverki Elínar systur þeirra bræðra og Arnar Bertelsson í hlutverki eiginmanns Elínar, Jóns en Arnar lék einnig móður Axels.

Leikfélag Hafnarfjarðar kemst ágætlega frá þessu verkefni sem hefði auðveldlega getað misheppnast með öllu. Líklega hefur eitthvað verið skorið úr handriti enda mátti sýningin svo sem ekki vera mikið lengri en hún var. Ráðskona Bakkabræðra er sýning sem vel má hafa gaman af á þeim forsendum sem hún er sett upp.

Hörður Sigurðarson