Nú glymja í eyrum alla daga jólapopplögin sívinsælu og þótt maður reyni að flýja þau þá smjúga þau allstaðar. Sama hvaða tökkum er snúið á radíóinu eða sjónvarpskassanum þá er mamma allstaðar að kyssa jólasvein. Þessvegna var það afar hressandi að skreppa í Jólabónus hjá Hugleik og hlusta á öll ójólalögin eða andjólalögin eða hvað má kalla þau. Hugleikur býður nú sinn venjulega mánaðarskammt af leikrænu efni en nú með jólaívafi og vænum skammti af tónlist.
jolabonus.pngÞað má eiginlega segja að tónlistin hafi tekið völdin í þessum mánaðarskammti Hugleiks. Eiginlega svo mikið að hún bar eiginlega ofurliði leikþætti kvöldsins sem eins og gengur og gerist voru misjafnir að gæðum og innihaldi. Fyrsti þátturinn þetta kvöldið var eftir Þórunni Guðmundsdóttur eðalleikskáld en heldur fannst mér henni fatast flugið í þessum þætti sem fjallaði um firringu fólks og innkaupakerra. Þetta var leiðinlegur og ófrumlegur þáttur en Sigríði Birnu tókst samt að koma fram á manni brosinu með ágætri persónusköpun. Þórunni tókst nú mun betur upp í þættinum Mikið fyrir börn sem hún samdi með Hrefnu Friðriksdóttur. Hann var í einu orði frábær. Þarna kom allt saman, flott hugmynd, gott handrit, stórskemmtileg tónlist, góður flutningur í leik og söng og fín leikstjórnarvinna. Þarna voru Hugleikarar sko í essinu sínu. Eitthvað kannaðist maður við kumpánana í Skurði en þeir voru í Hannyrðum Sigurðar Pálssonar í Margt Smátt í vor. Það var nú gaman að sjá kauðana aftur og reyna sig í laufabrauðsskurðinum á sinn máta. Heldur þótti mér þó þessi þáttur þynnri í roðinu en Hannyrðirnar, samtöl stirðari og grínið máttlausara. En samt væri ég alveg til í sjá meira til þessara kumpána og held meira að segja að þeir væru nú bara tilvalið sjónvarpsefni. Lifi íslensk dagskrárgerð! Jólasveinaþáttur Nínu Bjarkar Jónsdóttur var skemmtileg og ágætlega útfærður og þar fór Ármann Guðmundsson á kostum sem Stúfur. Svona sá ég hann alltaf fyrir mér.

Tónlistaratriði Jólabónussins voru alveg hreint stórkostleg og varla hægt að gera upp á milli þeirra. Það var þó mikið ánægjuefni hvað Ljótu hálfvitarnir hafa bólgnað út en þeirra framlag var sko aðgangseyrisins virði. Hjárómur var svo alls ekkert hjáróma þótt að kasú syrpan hafi að vísu hljómað mjög exótísk. Þarna er á ferðinni kór sem ætti að syngja á jólum og oftar. Þórunn Guðmundsdóttir söng svo alein fyrir gesti undir spili bræðrana úr Hálfvitunum og gerði það náttúrulega snilldarlega. Þórunn er ein af okkar bestu söngkonum og ætti tvímælalaust að syngja á messunni á aðfangadagskvöld, alltaf.

Jólabónus Hugleiks var fantafín skemmtun þrátt fyrir misjafna leikþætti. Ætlaði að gefa þrjár stjörnur en bæti við hálfri fyrir tónlistina sem glymur en í eyrunum á mér og drekkir jólapopplögunum sívinsælu.

Lárus Vilhjálmsson