Herranótt er elsta leiklistarstofnun landsins. Að leiksýningum undir þessu nafni hafa ungmenni staðið  allt frá átjándu öld. Nú setur þetta rótgróna félag upp sína 162. sýningu. Og eldist vel. Virðist satt best að segja bara ekki eldast neitt. Verkið er frá 1906, Liliom eftir Molnár. Það hefur einnig gengið í endurnýjun lífdaga, eins og félagið gerir ár hvert.

Skemmst frá því að segja að leikgerðin er einstaklega lipurlega gerð. Það er meira en að segja það að færa gömul verk til nútímans og staðfæra þau, og það misheppnast oft, en ekki í þessu tilfelli. Útkoman er stórglæsileg og valið á verkinu er snjallt. Efniviðurinn á síst verr við nú en fyrir hundrað árum. Ólafi Agli hefur ásamt dramatúrgum sínum farist vinnan við staðfærsluna einstaklega vel úr hendi.

Allar sviðslausnir eru einnig frábærlega unnar. Hinar mörgu skiptingar eru leystar með hávaða, dansi, lýsingartrixum og múni. Það svínvirkar. Sviðsmyndin er einföld og stendur algjörlega fyrir sínu. Ég var sérstaklega hrifin af einni lausn… en ég get ekki sagt frá henni án þess að gefa plottið algjörlega upp. Svo ég segi bara "ýmislegt" í seinni hlutanum er einstaklega kúl.

Og hvað með leikarana?
Allir stóðu sig vel og voru öruggir í hlutverkum sínum…. (Nei, þetta er of boríng að segja um þessa sýningu. Reynum aftur.)
Allir stóðu sig MJÖG vel og voru öruggir…. Zzzzzzz,

Baltasar Breki var svo kúl í hlutverki töffarans DJ Lilla að maður fékk tannakul á að horfa á hann. Seinna í verkinu sýndi hann einnig frábæran og hófstilltan leik í viðkvæmari atriðum. Það er ekki á allra færi að leika fyrst skíthæl, en vekja síðan samúð manns og, upp að vissu marki, skilning.
Thelma Marín var einnig meiriháttar í hlutverki unnustu hans, Júlíu. Fyrsta flokks kóari sem lét ævinlega eins og allt væri í lagi í sambúðinni við vandræðamann og trúði statt og stöðugt á það góða í honum. Þetta með góðar stúlkur sem laðast að erfiðum töffurum er greinilega bæði gömul saga og ný.
Magnús Örn var frábær sem töffarinn Fiskurinn og síðar sem dómarinn. Þar er á ferðinni mikill talent með góða tilfinningu fyrir kómískum tímasetningum.

Annars var hvergi veikan hlekk að finna í leikarahópnum. Ég var mjög hrifin af löggunum sem Guðmundur Felixson og Þóra Sigurðardóttir léku af stakri snilld. Fólk í öðrum hlutverkum komst allt mjög vel frá sínu. Sú orka og kraftur sem skein út úr hópsenun var síðan alveg frábær.

Öll leikstjórn og lögn á verkinu virkaði áreyslulaus og eðlileg. Ólafi Agli hefur tekist vel upp, sem endranær, að ná því besta út úr hverjum leikara og finna mjög eðlilega og flotta leið í gegnum verkið.

Síðast en ekki síst skal minnst á tónlistina. Þrátt fyrir nokkuð nákvæman lestur á leikskrá tókst mér ekki að komast að því hvort hér er um frumsamda tónlist að ræða eða eftir hvern eða hverja hún er. Tónlist og hljóðmynd féll allavega vel að verkinu, hver sem ber ábyrgð á henni, og flutningur hljómsveitar var stórgóður.

Ég mæli með sýningu Herranætur í ár. Þetta er stórgóð sýning á öllum póstum. Oftast er ég nokkuð sátt við mitt hlutskipti, sem miðaldra húsmóðir í Vesturbænum, en við einstöku upplifun man maður hvað var hroðalega gaman að vera í leikfélaginu í menntaskólanum með endalausa og óbeislaða orku skínandi í allar áttir og allt lífið framundan. Þessi sýning er ein af þeim.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir