Freyvangsleikhúsið hefur sýnt leikritið ,Gaukshreiðrið síðan 16. febrúar og hefur aðsókn verið góð að sögn. Ég undirritaður brá mér á sýningu í gærkvöldi 8. mars og verð að segja að ég varð hrifinn, stórhrifinn. Verkið er samið upp úr bók eftir Ken Kensey og Dale Wasserman gerði leikgerð upp úr bókinni, en Karl Ágúst Úlfsson þýddi þessa leikgerð. En ,,Gaukshreiðrið“ var fyrst sýnt hér á landi á, Húsavík árið 1992 og þá í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur og María Sigurðardóttir leikstýrði.

,,Gaukshreiðrið“ gerist á geðveikrahæli, en fjallar í raun ef til vill ekki um slíka stofnun, heldur er þetta dæmisaga úr samfélagi og viðbrögðum þess við fólki sem ekki vill eða er tilbúið að aðlagast hefðum og reglum kerfisins. Höfundur leikgerðarinnar, Dale Wasserman líkti ,,Gaukshreiðrinu“ við söguna af, Don Quixote, og segir söguna hafa færst til nútímans, þess nútíma eða 7. áratugarins, þar sem uppreisnarmaðurinn tekst á við hið tæknivædda samfélag, sem krefst þess, að allir séu eins, og ef ekki, þá þurfi þeir leiðréttingu við, og þá komu til þessi ,,geðveikrahæli.“Einhverjir léku sig geðveika til að sleppa við fangelsun, geðveikrahæli var skárri kostur og þetta gerði einmitt, R.P. McMurphy.

En að sýningu, Freyvangsleikhússins. Sýningin er áhrifamikil og frá hendi höfundar er stutt á milli hrottaskapar og húmors. Gunnar Björn Guðmundsson er leikstjóri sýningarinnar og hefur honum tekist einstaklega vel upp með leikarahópinn, hvergi veikur hlekkur, allt gengur upp og allir standa sig með sóma og vel það. Leikmynd, Þorsteins Gíslasonar og samverkamanna hans er góð og virkar vel fyrir verkið. Um leikmuni sá Guðrún Elva Lárusdóttir ásamt fleirum, og eru þau mál öll vel leyst. Um búninga sáu, Jóhanna S. Ingólfsdóttir og Guðný Kristinsdóttir og gengur allt upp hjá þeim. Fínleg förðun og hár gerðu það sem gera þurfti. Öll tæknivinna, svo sem ljós, hljóð og myndtækni var góð og stjórnun á þessum hlutum einnig í fullkomnu lagi.

Eins og fyrr sagði, stóðu allir leikarar sig með eindæmum vel og væri hægt að segja gott um þá alla með nafni, en persónusköpun hjá þeim öllum er vel unnin og flott. Indjánahöfðinginn, Bromden, leikinn af, Ingólfi Þórssyni,hefur verið lengi á geðveikrahælinu, og má segja að hann leiki á umhverfið, alla vega um sinn. Ingólfur flutti sínar einræður, samtöl við látinn pabba, af einlægni og var hans karaktersköpun góð og trúverðug. Uppreisnarmanninn, R.P. McMurphy leikur Freysteinn Sverrisson og gerir það með eindæmum vel, sterkur leikari þar á ferð. Einhver hvíslaði því að mér að hann hefði ekki komist inn í Leiklistarskólann? Ég segi nú bara, ha???? Svo var það senuþjófurinn, Vilhjálmur Árnason, hann þurfti ekkert að gera, bara vera.

,,Gaukshreiðrið“ er frábær sýning, vel gerð í alla staði og Freyvangsleikhúsinu til mikils sóma, hvergi hnökrar. Ég hvet fólk til að skella sér í leikhúsið og sjá þessa mögnuðu sýningu hjá mögnuðu leikhúsi og með mögnuðum leikurum.

Aðalsteinn Bergdal