Leikfélag Kópavogs
Hringurinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur
Leikstjóri: Hörður Sigurðarson

Leikfélag Kópavogs frumsýndi síðastliðinn sunnudag, 26. febrúar, leikritið Hringinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur í Leikhúsinu við Funalind í Kópavogi. Í leikritinu segir frá Evgeníu sem lifir einkar fábrotnu lífi og starfar hjá opinberri stofnun. Dag einn kemur lögfræðingur til hennar og greinir henni frá láti föður hennar. Hún kynntist föður sínum raunar aldrei, en hann hefur samt sem áður arfleitt hana og reynist föðurarfurinn vera sirkus.

Lífið í sirkusnum er svo sannarlega ólíkt því lífi sem Evgenía hefur kynnst áður og persónurnar eru litríkar og ekkert „venjufólk“. Og „venjufólkið“ kemur mikið við sögu í þessu leikriti eða öllu heldur spurningin um hvað er venjulegt og hvort það er eftirsóknarvert að vera óvenjulegur. Venjulegt fólk á kannski ekki heldur heima innan um mjög óvenjulegt fólk.

Það er heldur ekki auðvelt fyrir Evgeníu að sannfæra sirkusfólkið um að hún eigi heima meðal þess. Því Evgenía er ofurvenjuleg manneskja. Það eru einmitt þessar tilvistarlegu spurningar sem gera verkið áhugavert og uppsetning verksins er á margan hátt skemmtileg.

evg_urposter_200x150Búningar leikaranna og hátterni persónanna undirstrika mjög vel hver er venjulegur og hver ekki. Þannig er sirkusfólkið allt í litríkum búningum, en búningar hins venjulega fólks eru gráir eða í pastellitum. Fyrsta atriði sýningarinnar var mjög eftirminnilegt, en það má segja að það hafi verið Parkisonslögmálið í hnotskurn. En þar er sýnt fólk sem vinnur við að stimpla pappíra. Skemmtilega húmorískt og beitt í senn. Leikur og tónlist unnu þar vel saman. Þegar Evgenía kemur í sirkusinn verður allt litríkara, en þar fannst mér þó vanta uppá aðeins hraðar skiptingar og það hefði mátt vera meira fjör í sirkusfólkinu.

Það sem er sterkast við þessa sýningu er leikritið sjálft. Í leikinn vantaði snerpu, þó nokkrir leikarar hafi sýnt ágætis tilþrif, en í heildina var sýningin of hæg. Hraðinn eykst þó eflaust með fleiri sýningum. Tónlistin sem er eftir Sváfni Sigurðarson féll vel að verkinu og kvikmyndabútar sem sýndir voru til að undirstrika einstöku atriði voru skemmtileg viðbót.

Það er full ástæða til að hvetja fólk til að sjá sýninguna, því þetta er sýning sem vekur mann til umhugsunar, en það er líka heilmikill húmor í texta verksins. Þegar ég gekk út af sýningunni velti ég því t.d. fyrir mér hvort sýningargestir væru bara ósköp venjulegt fólk eða kannski bara stærstu smámenn í heimi.

Elín Gunnlaugsdóttir

{mos_fb_discuss:2}