Leikfélag Selfoss
Sólarferð eftir Guðmund Steinsson
Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson

Þann 24. febrúar síðastliðinn frumsýndi Leikfélag Selfoss Sólarferð eftir Guðmund Steinsson í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Sólarferð var sett upp í fyrsta sinn af Þjóðleikhúsinu árið 1976 við góðar undirtektir og síðan aftur 2008. Leikritið gerist snemma á áttunda áratugnum og fjallar um ferð nokkurra íslenskra hjóna til Costa del Sol þar sem þau ætla að njóta sólarinnar og frelsisins sem fylgir því að vera í fríi, fjarri skyldum heimilis og launavinnu.

 

Þetta er gamanleikur en þó með alvarlegum undirtón. Leikritið var ekta samtímaverk á sínum tíma og var skrifað inn í tíðarandann eins og hann var 1975. Þótt margt hafi breyst síðan talar verkið til okkar með sama hætti og þá. Íslendingar á sólarströnd eru nákvæmlega eins í dag og þeir voru fyrir 40 árum.

Það er ekki vandalaust að setja þetta leikrit upp því það byggist á svo tíðindalítilli atburðarás, persónurnar eru afar hversdagslegar og samtölin ótrúlega innihaldslaus, söguþráðurinn er aldrei áhugaverður eða spennandi, enginn brandari, hvergi hnyttin tilsvör og það er hvorki flétta né óvæntur snúningur í endann. Það sem hér er sagt virðist vera pottþétt uppskrift að hundleiðinlegu leikhúsi en reyndin er samt sú að það er einmitt í þessu sem snilld verksins liggur. Sýningin á Selfossi var dúndurgóð og þrususkemmtileg, drepfyndin og átakanleg í senn og aldrei dauður punktur.

Aðalpersónurnar eru fimm; tvenn íslensk hjón, spænskur þjónn og síðan nokkrar aukapersónur. Hitann og þungann af leiknum báru þau Guðfinna Gunnarsdóttir og Guðmundur Karl Sigurdórsson í hlutverkum hjónanna Nínu og Stefáns. Þau fóru bæði á kostunum og tókst að gera léttvæg samtölin og hversdagslegt þrasið drepfyndin. Íris Árný Magnúsdóttir og Stefán Ólafsson léku hin hjónin, Stellu og Jón og fóru oft á kostum sem hinir vönu ferðamenn á sólarströndinni, bæði í dansi með kastaníettur og í drykkjuskap. Vandræðagangurinn í samskiptum þessa litla hóps var stundum óborganlegur, til dæmis  þegar þau sátu og horfðu tómum augum fram í salinn og sögðu ekki neitt, enda ekki um neitt að tala. Svona atriði er ávísun á dauðan punkt í leikriti en áhorfendur á Selfossi hlógu og tístu af ánægju.

Þjónninn, Baldvin Árnason, var 100% Spánverji, klæddur eins og nautabani þótt hlutverk hans væri bara að bera cuba libre í Íslendingana. Hreyfingarnar voru fjaðurmagnaðar eins og hjá flamencodansara enda verður kynþokkinn að vera á hreinu í þessu hlutverki. Elli Hafliðason lék ofbeldisfullan athafnamann sem var sífullur á ströndinni en vafalaust harðduglegur í vinnunni heima á Fróni. Sigrún Sighvatsdóttir lék konu hans sem sætti sig ágætlega við barsmíðarnar af því að hann skaffaði svo vel. Erla Dan Jónsdóttir var í hlutverki einhleypu konunnar sem táldró karlana í hita næturinnar með afar sannfærandi leik tæfunnar.

solarferd-hopurLeikur Guðfinnu Gunnarsdóttur vakti sérstaka hrifningu mína. Að það skuli vera hægt að glæða þessa hægu og hálfbældu húsmóður slíku lífi er afrek út af fyrir sig, pirringurinn út í eiginmanninn þegar hann leitaði á hana, umhyggjan fyrir honum þegar hann engdist á salerninu, áhuginn á þjóninum fagurlimaða og sektarkenndin yfir að láta forfærast, allt var þetta hárrétt gert. Guðmundur Karl átti líka ágætan leik. Honum tókst að gera áhugaverða og dauðfyndna persónu úr litlausum og magaveikum Íslendingi í ástlausu hjónabandi. Það er ekki öllum gefið. Ég sá Sólarferð á fjölum Þjóðleikhússins fyrir fáum árum, ágæta sýningu og vel leikna. Þessi sýning stendur henni ekki að baki og verður líklega eftirminnilegri þegar fram líða stundir.

Yfirbragð sýningarinnar var hnökralaust. Sviðsmyndin var einföld og haganlega gerð, hótelherbergi þar sem persónurnar sötruðu sitt cuba libre og glímdu við meltingartruflanir og svalir framan við með sólbekk þar sem þær reyndu að verða brúnar en urðu bara rauðar. Lýsingin var látlaus og falleg, skin og skúrir á sólarströnd. Hljóðhönnun skiptir miklu máli í verkinu því búkhljóðin sem berast innan af klósettinu hafa mikið vægi og verða að vera sannfærandi. Hún var fagmannlega af hendi leyst og mússikin sem hljómaði þegar fjör tók að færast í leikinn var sú eina rétta. Leikskráin lítur út eins og gamall ferðabæklingur frá Guðna í Sunnu, hvort sem það er af ráðnum hug eður ei, og inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar um höfund, leikstjóra og alla aðstandendur sýningarinnar. Auk þess verkefnaskrá Leikfélags Selfoss allt frá árinu 1958.

Það þarf ekki að fjölyrða um leikstjórnina, hún var hreint ágæt. Stundum var allt kyrrt og hægt, allt að því pínlega hægt, þá hló salurinn, en síðan komu hraðir og fjörugir kaflar og þá iðuðu bekkirnir af kæti. Jafnvel í skiptingunum þegar blackout var á sviðinu þá brustu á atriði út í sal, sem ekki hafa sést í uppsetningum Sólarferðar fyrr, en juku á skemmtanagildi verksins.

Þessi kvöldstund í Litla leikhúsinu á Selfossi var einkar ánægjuleg. Það þýðir ekkert að setja upp Sólarferð ef leikhópurinn er ekki fyrsta flokks, það getur aldrei orðið annað en klúður, en hér var engu klúðrað.

Árni Hjartarson

{mos_fb_discuss:2}