Ég fór að sjá Meistarann og Margarítu um helgina. Mér hefur þótt þessi saga spennandi sem sviðsverkefni síðan ég las hana (sem var reyndar fyrir einhverjum 10 árum síðan) og þótti gaman að sjá að menn væru að ráðast í það verkefni hér. Ýmislegt í sýningunni þótti mér gott, annað slæmt, eins og gengur.
Leikmyndin og skipulagningin á rýminu þótti mér flott. Mínímalísk leikmyndin gekk vel upp í skemmtilegu samspili við lýsingu. Sýningin var framin ofan í “skurði” þar sem áhorfendur sátu beggja vegna, skemmtileg notkun á rýminu. Sami mínímalismi var hins vegar ekki í gangi þegar kom að búningum. Það var mikið um skrípalæti og “stæla” í búningum og gerfum sem virtust ekki þjóna neinum tilgangi öðrum en þeim að undirstrika kaósið í sögunni. Þetta gerði það t.d. að verkum að enginn sjáanlegur munur var á venjulegu fólki og yfirnáttúrulegum verum og ég hefði ekki vitað að kötturinn átti að vera köttur nema vegna þess að ég hafði lesið bókina. Þetta þótti mér mjög miður og skemmdi sýninguna frekar en að bæta nokkru við. Á köflum bættist síðan við trúðslegur leikstíll, einkum hjá aukapersónum í fjölmennari atriðum. Aftur, undirstrikaði glundroðann í sögunni, málið er bara að sagan er glundroðakennd. Ég held hins vegar að sagan sjálf gefi hann alveg fullt til kynna, hvaða leið sem farin er í handritsgerð og óþarfi að mata áhorfandann á því með teskeið.
Aðalleikarar sýningarinnar stóðu ljómandi vel. Að öðrum ólöstuðum var Kristján Franklín langflottastur sem djöfullinna, kannski ekki síst vegna þess að búningar, gerfi og öll lögn á hans karakter gekk fullkomlega upp. Margrét Vilhjálms var glæsileg sem Margaríta og Hjálmar Hjálmarsson stóð fyllilega fyrir sínu. Annars fannst mér lítil breidd í aldri standa sýningunni víða fyrir þrifum. (Þá á ég við útlits- og raddaldur, hef ekki hugmynd um raunaldur enda skiptir hann ekki máli.) Þó svo að leikarar hafi víða staðið sig ágætlega þóttu mér unglingslegar raddir Pílatusar og fleiri gera sýninguna flatneskjulega. Ég skildi heldur ekki alveg tilganginn með því að láta kvenfólk leika karlmenn á stöku stað. Það er einhvernveginn þannig að þó karlmenn í kvengerfi svínvirki næstum alltaf þá eru kynskipti á hinn veginn ógurlega vandmeðfarin, hvernig sem á því stendur.
Nú hef ég heyrt því fleygt að Hafnarfjarðarleikhúsmönnum hafi þótt boðskapur sögunnar eiga vel við í dag. Þeim þræði sögunnar sem lýtur að pólitískri ádeilu voru þó ekki gerð nein sérstök skil í þessari sýningu, eða ef það var ætlunin þá drukknaði hann mikið í fíflagangi. Þó var gerð tilraun til að naugða samtímanum inn í verkið með einu atriði fjögurra einræða og stöku samtímafyndi. Það var gífurlega banalt, virkaði engan veginn.
Brasstónlistin frá lúðrasveitinni fannst mér virka, og gaman að sjá hana marsera yfir stöku sinnum. Að öðru leyti þjónuðu aukaleikarar litlum tilgangi og hefði að skaðlausu mátt sleppa.
Sem sagt, talsverð tilraunastarfsemi í gangi, sem er náttúrulega alltaf vel. Sumt virkaði, annað ekki, eins og gengur. Sýningin var í það lengsta og erfitt að halda jafnvægi í sýningu sem byrjar með miklu trukki og dýfu og hægist síðan þegar á líður. En þar er eiginlega við Búlgakov að sakast.
Ef ég ætti að beita stjörnukerfi Lárusar þá myndi ég gefa þessu verki tvær stjörnur. Þetta er þó sýning sem áhugamenn um tilraunaleikhús þurfa endilega að sjá.