Markvisst og metnaðarfullt verkefnaval Halaleikhópsins heldur áfram að skila okkur áhorfendum eftirminnilegum upplifunum. Núna er það sjálfur Shakespeare sem heimsækir Halann með efni úr þremur leikritum, Þrettándakvöldi, Jónsmessunæturdraumi og Hinrik IV. Þröstur Guðbjartsson hefur áður fengist við bútasaum af þessu tagi og fléttar hér tvær senur úr síðarnefndu leikritunum saman við meginþræði Þrettándakvölds. Útkoman er að mati Þorgeirs Tryggvasonar í stuttu máli afbragðs skemmtun.
Reyndar hvarflaði að mér undir sýningunni viss vonbrigði með að fá ekki bara Þrettándakvöld í öllu sínu veldi, svo langt komust leikararnir með þetta snúna meistarastykki. Atriðin úr Draumnum og Hinrik IV voru prýðilega gerð en eiginlega of strípuð af samhengi sínu til að virka fullkomlega.
Um þau gildir samt það sama og um sýninguna í heild: Það er hreint aðdáunarvert hvað Halamenn komust langt með að skila gáskanum í snúnum texta Shakespeares. Óbundna kómíkin hjá honum er að mörgu leyti það sem erfiðast er að miðla til nútímaáhorfenda, enda brandararnir óneitanlega orðnir nokkuð gamlir. Drykkjukæti Falstaffs, Tóbíasar Búlka og félaga getur auðveldlega orðið nokkuð þreytandi, það hef ég jafnvel séð í öllu hátimbraðri leikhúsum en Halanum.
En hér var gleðin hinsvegar við völd og bullukollar Shakespeares ljóslifandi. Til þess þarf persónusköpunin að vera á hreinu, til viðbótar við það meirapróf sem orðsnilldin krefst.
Það tókst semsagt með ágætum.
Eigum við að tilgreina einhverja öðrum fremur? Allt í lagi þá. Gunnar Freyr Árnason var dásamlega rétt fullur Tóbías, dyggilega studdur af þeim Tobias Hausner (Andrés Agahlýr), Elísu Ósk Halldórsdóttur (María) og Pétri Orra Gíslasyni (Fjasti) Stefanía B. Björnsdóttir fór sérlega fallega með hlutverk Víólu. Atriðið hennar með Orsínó (Örn Sigurðsson) þar sem hún er næstum sprungin af ást sem hún getur ekki tjáð var augnablikið þegar ég áttaði mig á því að mig langaði bara að þau kláruðu Þrettándakvöld og engar refjar!
Og auðvitað glansar Gunnar Gunnarsson í enn einni glansrullunni sem bjartsýni brytinn Malvólíó.
Tónninn í sýningunni er hárréttur, glíman við textann er að baki og Halamenn sprikla af leikgleði. Þeir og Þröstur Guðbjartsson eiga hrós skilið og sæg af áhorfendum. Takk fyrir mig.
{mos_fb_discuss:2}