Í tilefni af Alþjóða leikhúsdeginum 27. mars 2003
Ávarpið er samið að beiðni Alþjóða leikhúsmálastofnunarinnar  ITI.
Við spyrjum í sífellu, hvort leikhúsið geri samtíma okkar raunveruleg skil. Leikhúsið speglaði veröldina í tvöþúsund ár og gerði grein fyrir stöðu mannsins. Hvort sem leiknir voru harmleikir eða gleðileikir var ljóst að líf manneskjunnar voru hennar óumflýjanlegu örlög. Maðurinn var ekki óskeikull; hann gerði skelfileg mistök, tókst á við aðstæður sínar, hann þyrsti í völd og var veiklunda, svikull og auðtrúa, blindur, kátur og glímdi við guð. Nú segja menn mér aftur á móti að við getum ekki lengur skoðað líf okkar samkvæmt hefðbundum aðferðum leikhússins, eða með hefðbundinni dramatúrgíu. Það sé semsagt engin leið til þess að segja sögur. Þess í stað koma textar af ýmsu tagi, ekki samtöl, en yfirlýsingar. Ekkert drama. Úti við sjóndeildarhringinn lúrir annarskonarmaður: Margklónuð vera, erfðafræðilega endurbætt. Og sé þessi nýi maður til í raun, mun hann ekki þurfa á hefðbundnu leikhúsi að halda. Hann mun ekki skilja átökin sem þar fara fram. Við sjáum þó ekki fram í tímann. Að mínu mati eigum við að gera allt sem við getum og nota til þess alla okkar hæfileika (hvaðan þeir koma, vitum við ekki) til þess að verja fyrir ókominni framtíð hinn illa, fagra, ófullkomna samtíma okkar, óskynsamlega drauma og árangurslaust erfiði okkar. Til þess höfum við ótal meðul: Í leikhúsinu koma saman margar ólíkar listgreinar; í því er kraftur þess fólginn. Leikhúsið er ófeimið við að nýta sér hvaðeina sem verður á vegi þess. Það brýtur allar meginreglur sínar jafnharðan. Að sjálfsögðu lítur það til strauma og stefna samtíðarinnar, sækir myndmál sitt til annarra miðla, er hægfara á stundum, blaðskellandi, stamar, þegir, setur sig í hátíðlegar stellingar og er barnalegt, víkur sér undan, tætir í sundur sögurnar, en segir þær engu að síður. Ég er viss um að það verður alltaf líf í leikhúsinu, svo lengi sem við finnum hjá okkur þörf til þess að stíga á svið og sýna hvert öðru hvernig við erum og hvernig við erum ekki og hvernig við ættum að vera.
Já, lifi leikhúsið! Leiklistin er ein merkasta uppfinning mannkynsins; jafn sérstæð og uppgötvun hjólsins, eða yfirráð mannsins yfir eldinum.

Tankred Dorst.

Þýska leikskáldið Tankred Dorst er fæddur árið 1925. Hann er höfundur fjölda verka sem flest hafa verið frumsýnd í heimalandi hans. Meðal þeirra má nefna "Die Kurve", "Große Rede vor der Stadtmauer", "KleinerMann, was nun?", "Karlos", "Herr Paul" og "Fernando Krapp hat mir einen Brief geschrieben", en það leikrit var einmitt sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1995 undir heitinu "Sannur karlmaður". Þekktasta verk Dorsts er þó án efa "Merlin" – umfangsmikið leikrit sem byggir á þjóðsögunni um töframanninn Merlín, Artúr konung ogriddara hringborðsins.
Tankred Dorst hefur hlotið fjölmörg verðlaun, þ.á.m.hin virtu Buechner-verðlaun. Hann var ásamt eiginkonu sinni og samverkamanni, Ursúlu Ehler og leikhússtjóranum Manfred Beilharz stofnandi hinnar kunnu evrópsku leikritahátíðar ?Bonner Biennale?.
Tankred Dorst býr í Muenchen og Berlín.

Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson
fyrir Leiklistarsamband Íslands ? Íslandsdeild ITI