Laugardaginn 2. febrúar munu Hugleikur og Menntaskóli í tónlist frumsýna tvær íslenskar óperur byggðar á þekktum ævintýrum. Fyrir hlé birtast Þyrnirós, prins og norn í splunkunýrri óperu sem nefnist Ár og öld. Ungur prins hefur brotist í gegnum þyrnigerði og kemur inn í höll þar sem allir hafa sofið í hundrað ár en ævintýrið tekur óvænta stefnu þegar prinsinn gerir þau reginmistök að vekja nornina á undan Þyrnirós. Eftir hlé er það svo flagðið Gilitrutt sem blekkir hina húðlötu Ragnhildi en bóndi hennar og gimbrin Golsa koma til bjargar. Gilitrutt var fyrst flutt fyrir tíu árum síðan en um er að ræða frumflutning á Ár og öld.

Höfundur texta og tónlistar er Þórunn Guðmundsdóttir sem jafnframt leikstýrir verkunum. Kári Þormar stjórnar átta manna kammerhljómsveit og á sviðinu verða sex einsöngvarar, þrettán manna kór og ein gimbur. Sýningin er hugsuð jafnt fyrir börn sem fullorðna. Sýningar verða í Iðnó lau. 2. og sun. 3. febrúar kl. 14.00 og mán. 4. febrúar kl. 20.00. Miðasala fer fram á tix.is og við innganginn.

Myndin er tekin af Mary M. Bierne