Freyvangsleikhúsið
Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri Skúli Gautason

Þann 12. mars 2016 frumsýndi Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit leikritið Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarson. Það var sérstök upplifun á þessu hryssingslega marskvöldið 2016 að flakka fram og tilbaka milli síðnútíma og ársins 1975 í gegnum efnistök leikverksins. Um leið og hljómsveitin slær fyrsta tóninn þá er áhorfendum kippt til ársins 1975 og þeirri tilfinningu vel við haldið í sviðsmynd og búningum leikaranna sem nú stíga á svið. Það er eftirvænting í loftinu og verkið fer snurðulaust af stað, saumakonurnar setja við saumavélar sínar eins og vera ber og eigandinn lætur sjá sig til að klappa á rassa og undirstrika karllægan valdastrúktúrinn í fyrirtækinu. Árið er 1975 og verkakonurnar keppast við að sauma í þágu fjármagnseigandans sem gefur þeim „vingjarnlegt“ klapp á rassinn þegar tækifæri gefst til. En svo þegar líður á sýninguna hætta skilin á milli 1975 og 2016 að vera jafnskýr og sé áhorfandinn læs á stöðu kynjanna í síðnútímanum þá er honum bara alls ekkert alltaf ljóst hvort liðna tíð eða nútíð er að ræða í umfjöllunarefnum verksins. Viðfangsefni leikverksins Saumastofunnar frá 1975 eru nefnilega líka viðfangsefni ársins 2016 eins og; stéttabarátta, jafnréttisbarátta, samstaða, kyngervi, kynbundin launamunur, kynhneigð, kynvitund, fátækt, kynbundið ofbeldi, staðalímyndir, kynferðisleg áreitni, geðheilbrigði og lífsgæðakapphlaup.

Mörg lifum við okkar daglegu lífi í nánu samneyti við annað fólk án þess endilega að þekkja sögur þess vel. Það er annað áhugavert sjónarhorn Saumastofunnar hvernig við getum látið daglegt líf renna áfram í slíku samneyti án þess að hafa þörf eða getu til að öðlast meiri þekkingu eða kunnugleika á lífi þeirra sem við erum í daglegum samskiptum við. Þetta breytist þó á Saumnum þegar Sigga kemur með ferðatöskur fullar af hnallþórum og víni í tilefni af sjötugs afmæli sínu og losnar þá um málbein saumakvennanna sem deila lífsögum sínum hver af annarri. Í ljós kemur að konurnar sem unnið hafa saman í lengri tíma þekkja hver aðra mjög lítið. Áhorfandinn deilir gleði og sorgum með starfsfólkinu á saumastofunni Saumnum þar sem eftir lifir sýningar og leikhópnum tekst vel upp við að koma öllum þessum mannlegu sögum til skila í máli og söng með skýrum og sannfærandi hætti. Það þéttir sýninguna óneitanlega að hafa lifandi undirspil og eru útsetningar og flutningur tónlistarinnar fínar. Auðvitað, eins og gefur að skilja í áhugamannasýningu sem þessari, þá komast leikararnir misvel frá söngatriðunum en í heildina gengur útfærslan upp og öll komast þau vel frá sínu. Að öðrum ólöstuðu þá komast þær Sædís Gunnarsdóttir í hlutverki Siggu hinar sjötugu og Úlfhildur Örnólfsdóttir í hlutverki Gunnu best frá sínum hlutverkum. Sigga sem afsakandi hefur þjónað öðrum allt sitt líf er sannfærandi og Gunna sem missti ungt barn sitt er kraftmikil í sínu hlutverki. En framsetning allra leikaranna er góð og trúverðug. Ágæti innkoma Kalla sem leikinn er af Hjálmari Arinbjarnarsyni minnir okkur hversu heftandi staðalímyndir geta verið sem er góð áminning á tímum ofurkynjaðrar markaðssetningar.

Heildaryfirbragð sýningarinnar er gott, leikmyndin er einföld en vel útfærð. Hljómsveitin er í bakgrunni sýningarinnar en samt svo mikilvæg heildarmyndinni. Tónlistin, Hagkaupsslopparnir og litríkir kjólar saumakvennanna ýta undir hugrenningatengsl við áttunda áratuginn ásamt afdráttarlausri karlrembu yfirmannsins. Það er alltaf sérstök stemning sem fylgir þéttum áhugamannaleiksýningum og enn og aftur tekst Freyvangsleikhúsinu vel upp. Efnisvalið er gott í kjölfar 100 ára kosningaafmælis kvenna og allra þeirra byltinga sem fram fóru á því ári. Verkið talar inn í nútímann á sama tíma og það er söguleg heimild um að það sem okkur þykja sjálfsögð réttindi í dag hafa ekki áunnist af sjálfu sér heldur með sameiginlegri baráttu og ekki síst samstöðu sem saumastofuneigandinn gerir svo fjálglega grín af að konum skorti. Þetta er í fyrsta skipti sem undirrituð sér uppsetningu á Saumastofu Kjartans Ragnarssonar en ég er afskaplega ánægð með þessa uppsetningu í Freyvangsleikhúsinu, þar sem leikararnir og allir aðstandendur sýningarinnar eiga mikið hrós skilið. Ég vona að leikhús landsins haldi áfram að setja upp þetta vel skrifaða og mannlega verk og að einn góðan veðurdag gætum við sagt að efnistökin séu barn síns tíma af því að við höfum þá náð jafnrétti og að þau viðfangsefni sem talin eru upp hér að ofan heyri sögunni til en orsaka ekki þessa þrúgandi áminningu um að þrátt fyrir árangur í jafnréttismálum þá eigum við enn svo mikið eftir áunnið. Frábær sýning!

Andrea Hjálmsdóttir