Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
Það er ekki allt sem sýnist
Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
En aftur að verkinu, Maríusögur gerast á æskuheimili Stefaníu, sem nú er heimili Stefaníu og Þráins. Faðir Stefaníu er nýdáinn, en jarðaförin hefur ekki enn farið fram. Stórri mynd af hinum nýlátna er stillt upp á borði í stofunni. Marteinn bróðir Stefaníu er nýkominn heim frá Svíðþjóð til að vera við jarðaför föður síns og María, æskuvinkona þeirra Stefaníu og Marteins er í heimsókn ásamt Eggerti unnusta sínum. Á yfirborðinu er allt slétt og fellt. Stefanía ber fram kaffi og kökur og gestirnir ræða um daginn og veginn. Frá upphafi er þó ýmislegt gefið í skyn þannig að áhorfandinn verður þess fljótt áskynja að það kraumar eitthvað undir hinu slétta og fellda yfirborði.
Persónur verksins eru hálfgerðar steríótýpur og er það örugglega meining höfundarins að svo sé. Stefanía, leikin af Írisi Árnýju Magnúsdóttur, er hin alltumlykjandi hugulsama húsmóðir, Þráinn, leikinn af Hafþóri Agnari Unnarssyni, er hinn samviskusami eiginmaður. Alltaf að dytta að og plumar sig vel í vinnunni. Hann hefur meira að segja verið gerður að lagerstjóra! Marteinn, leikinn af Ármanni Ingunnarsyni, er uppburðarlítill og virðist lítið hafa orðið úr honum. Stefanía og María koma enn fram við Martein eins og lítinn strák og hann virðist yfirleitt vera nokkuð sáttur við það. María, leikin af Sigríði Hafsteinsdóttur, er sennilega margræðasta persóna leikritsins. Hún er gamansöm og ögrandi. Kærasti Maríu, Eggert, leikinn af Viktori Inga Jónssyni, er frekar einföld sál og má segja að hann sé alltaf sammála síðasta ræðumanni. Eftir því sem verkinu vindur fram kemur hið ósagða í ljós. En orðaleikir og tvíræðni í tilsvörum gerir það að verkum að áhorfandinn veit í lok verksins ekki alveg hvað er satt og hvað er logið.
Uppsetningin í Litla leikhúsinu er að flestu leyti mjög hefðbundin. Verkið gerist að stórum hluta í stofunni hjá Stefaníu og Þráni, en einnig í kjallaraherbergi sem haft er aðeins til hliðar á sviðinu og er það ágætis uppbrot. Verkið byggir mikið á hinum talaða texta og hann kemst vel til skila í ágætum leik leikaranna. En hlutverkin bjóða samt upp á mismikil tilþrif. Sumar persónurnar eins og Stefanía og Marteinn eru litlausar frá höfundarins hendi og örugglega vandasamar í túlkun þess vegna. Þráinn, María og Eggert eru mun líflegri karakterar og buðu því uppá meiri tilþrif í leiknum.
Tónlistin er notuð í uppsetningunni til að skilja á milli þátta og er það ágætt. Ég saknaði þó ákveðins heildarsvips í vali á tónlist. Þá var tempóið í sýningunni nokkuð hægt, en það á örugglega eftir að verða hraðara eftir því sem sýningum fjölgar.
Í heildina séð er þetta mjög góð sýning. Verkið er meinfyndið, en með alvarlegum undirtón. Þeir sem hafa gaman af gríni ættu það geta skemmt sér mjög vel, en einnig þeir sem vilja kafa eitthvað dýpra. Það er því óhætt að hvetja alla til að skella sér í leikhús á Selfossi.
Elín Gunnlaugsdóttir