Gríðarleg velgengni Mary Poppins heldur áfram og mun gestur númer 50.000 mæta á sýningu um næstu helgi. Sá gestur, sem verður númer 50.000, verður leystur út með veglegum vinningum. Óhætt er að segja að leikhúsgestir hafi tekið Mary Poppins og Bert vini hennar fagnandi og laugardaginn 10. nóvember er komið að sýningu númer 100.

Sýningin er sú viðamesta og flóknasta sem Borgarleikhúsið hefur nokkru sinni ráðist í – mannmörg og krefjandi dans og söngatriði, hraðar og stórar sviðskiptingar, háskaleg flugatriði og ótal tæknibrellur. Alls eru 50 manns á sviði í Mary Poppins (leikarar, kór, dansarar Íslenska dansflokksins, hljómveit og börn) og mikill fjöldi á bak við tjöldin. Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir verkinu og Gísli Rúnar Jónsson annast þýðingu á lausu og bundnu máli. Tónlistin úr söngleiknum kom út á geisladisk og er tónlistarstjóri Agnar Már Magnússon en hann leiðir 11 manna hljómsveit sem spilar í sýningunni. Leikmyndahönnuður er Petr Hloušek, en hann hefur hannað fjölmargar stórsýningar víðsvegar um Evrópu og María Ólafsdóttir hannar búninga. Danshöfundur sýningarinnar er einn heitasti danshöfundur Evrópu, Lee Proud og hefur Íslenski Dansflokkurinn gengið til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari sýningu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert.
Mary Poppins hlaut einróma lof gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda og var tilnefnd til átta Grímuverðlauna.