Öllum börnum í leikskólum Reykjavíkur fæddum árið 2008 er boðið í Borgarleikhúsið í vikunni. Kynning á undraveröld leikhússins verður haldin á Stóra sviðinu kl 10.00 alla morgna frá mánudegi til fimmtudags. Nýstofnuð fræðsludeild leikhússins, með Ástrósu Elísdóttur í forsvari, stendur fyrir heimsóknunum.

Hátt á annað þúsund fimm ára barna munu heimsækja Borgarleikhúsið í vikunni. Þau munu fá innsýn í starfsemi leikhúss og fylgjast með starfsmanninum Lalla, sem er upptekinn við að leita að flugdreka fyrir næstu sýningu á Mary Poppins, en tekur þeim opnum örmum og veitir þeim innsýn í störf leikhússins og undirbúning leiksýningar. Þá skjóta Skoppa og Skrítla upp kollinum auk þess sem leikararnir Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Björn Stefánsson kynna list leikarans fyrir börnunum, bregða sér í ýmis gervi og fá börnin til að aðstoða sig við að spinna leikrit. Börnin skoða hvað býr að tjaladabaki og ýmsir galdara leikhússins eru afhjúpaðir – hvernig sviðið snýst, hvernig snjóar, hvernig er flogið, hvernig röddum er breytt og ótal margt fleira.