Leikfélag Húsavíkur tók til í skúffunum sínum á dögunum og fann þar alls konar efnivið sem það setti á svið í Samkomuhúsinu sínu. Þetta var hin besta skemmtun. Samkoman var sett af ungum nemanda í Borgarhólsskóla, Davíð Helga Davíssyni sem gerði það af miklu öryggi. Hins vegar voru kynnar skemmtunarinnar þeir félagar Þorkell Björnsson betur þekktur sem Oggi og Jóhannes Sigurjónsson, oft kenndur við Víkurblaðið heitið og voru þeir skemmtilegir eins og þeirra er von og vísa.

Þarna var boðið upp á ljóðalestur, voru það Anna Ragnarsdóttir og Sigurður Hallmarsson sem lásu ljóð, Anna las ljóð eftir sjálfa sig og Diddi eftir frúna frá Sandi í Aðaldal. Þau gerðu þetta vel, svo unun var á að hlusta. Reyndar las Hilda Kristjánsdóttir líka ljóð, eftir sjálfa sig og fannst mér sá þáttur ekki eiga alveg heima á þessari samkomu. Hún hefði líka mátt æfa sig ögn betur fannst mér en er greinilega ötul með ljóða-pennann.

Sönglistinni var líka gerð skil á þessari samkomu, fyrstur á svið var söngsnillingurinn Aðalsteinn Júlíusson eða Addi lögga og söng hann eins og engill og ég vona bara að hann eigi eftir að stíga oftar á svið og syngja fyrir okkur. KK og Siggi sungu líka fyrir okkur, frumsamin lög og gerðu þeir það mjög vel, þeir eru alveg fantagóðir lagasmiðir líka. KK og Siggi eru Kristján Halldórsson og Kristján Þór Magnússon og svo auðvitað Sigurður Illugason. Gömlu kempurnar Sigurður Hallmarsson og Ingimundur Jónsson spiluðu líka fyrir okkur og voru þeir skemmtilegir að vanda.

Blessuð börnin komu þarna líka fram, fjórir nemendur Borgarhólsskóla, Berglind Ólafsdóttir, Heiðdís Hafþórsdóttir, Sigvaldi Einarsson og Stefán Júlíus Aðalsteinsson lásu súrrealíska sögu eftir Heiðar Kristjánsson. Sagan var óborganlega fyndin og lásu þau hana af öryggi og höfðu öll greinilega mjög gaman af. Diddi og Ingimundur mættu einnig til leiks með leiklestri á Góða dátanum Svejk, en þeir lásu sömu hlutverk og þeir léku fyrir 30 árum. Þeir voru alveg frábærir og sérstaklega var seinna atriðið skemmtilegt. Mjög vel valið atriði þar sem Svejk er að þylja upp reglur til að muna tölurnar 4 2 6 8. Ingimundur hefur greinilega engu gleymt frá því fyrir 30 árum.

Rúsínan í pylsuendanum var án efa einþáttungur eftir Odd Bjarna Þorkelsson, Einræktun er hreinræktun. Sem fjallar um fólk í afskekktu byggðarlagi og það er að setja upp Skugga Svein. Generalprufan er búin og leikstjórinn er að gefa nótur. Þar var Sigurður Illugason leikstjórinn, Kristján Þór og Hjálmar Ingimarsson léku Siggana, Hólmfríður Anna Aðalsteinsdóttir og Elín Ásbjarnardóttir léku Siggurnar. Þau voru hreint út sagt frábær og alveg dásamleg í vextinum, sjálf hef ég leikið í þessum einþáttungi og ekki datt mér í hug að hann væri svona fyndinn. Ég veit ekki hver leikstýrði en hugsa að það hafi verið Sigurður Illugason. Ef ég á að reyna að finna eitthvað sem var að þessum litla þætti þá var það helst að leikararnir sungu ekki nógu falskt!!! Ef ég er að gleyma einhverju þá biðst ég velvirðingar á því en ég fékk enga leikskrá sem mér þótti reyndar miður.
Í lokin var svo sunginn þjóðsöngur leikfélagsins, Heim til Írlands, þar sem fólk úr salnum var fengið upp á svið til að syngja með. Þetta var mjög skemmtilegur endir á annars frábæru kvöldi í Samkomuhúsinu og vil ég þakka Leikfélagi Húsavíkur fyrir mig.

Halla Rún Tryggvadóttir