Hugleikur frumsýndi Jólaævintýri, nýja leiksýningu sína í Tjarnarbíói, laugardaginn 19. nóvember. Eins og flestir vita hefur Hugleikur skapað sér sérstöðu með frumsömdum, heimatilbúnum leikverkum í gegnum tíðina og svo er einnig að þessu sinni en þó með því tilbrigði að byggt er á heimsþekktri erlendri sögu eftir einn af helstu skáldjöfrum heimsins.

Okkar maður var á staðnum.
hugleikur_logo.jpg
Hugleikur

Jólaævintýri eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason
Tónlist: Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason
Leikstjórar: Höfundar
Sýnt í Tjarnarbíói

Hugleikur frumsýndi Jólaævintýri, nýja leiksýningu sína í Tjarnarbíói, laugardaginn 19. nóvember. Eins og flestir vita hefur Hugleikur skapað sér sérstöðu með frumsömdum, heimatilbúnum leikverkum í gegnum tíðina og svo er einnig að þessu sinni en þó með því tilbrigði að byggt er á heimsþekktri erlendri sögu eftir einn af helstu skáldjöfrum heimsins. Sagan er „A Christmas Carol„, hið tímalausa snilldarverk Dickens þar sem hann fjallar um hin eilífu sannindi að auður og völd er ekki það sem mestu skiptir í lífinu og eru aldrei nægjanleg í sjálfu sér til að færa manninum hamingju. Það kemur ekki á óvart að Hugleikur heimfærir söguna upp á íslenska sveit fyrr á öldum enda snýst sagan hvorki um þann tíma né stað sem hún er upphaflega skrifuð fyrir. Þessi flutningur í tíma og rúmi gengur fullkomlega upp. Ebenezer Scrooge gæti allt eins hafa verið óðalsbóndi á Íslandi fyrra tíma og Bob Cratchit þrautpíndur vinnumaður hans.

jolaor2.jpg Frumsýningin var á köflum dálítið hæg og kraftlítil og einstaka atriði hefði mátt stytta en annarsstaðar rann hún vel og ljúflega. Þar sem hægðist á sýningunni má mögulega kenna frumsýningarstressinu alræmda um. Leikurinn var dálítið upp og ofan en margir stóðu sig þó vel. Þeir sem bera sýninguna þó fyrst og fremst uppi eru þeir Björn Thorarensen í hlutverki Ebenesers Skröggs og Jón Geir Jóhannsson í hlutverki Friðriks, frænda Ebenesers og einnig í hlutverki Ebenesers sem ungs manns. Björn er sannfærandi sem hinn samansaumaði mannhatari Ebeneser Skröggur og átti marga stórskemmtilega spretti. Jón Geir var sérlega góður í hlutverki hins næstum óþolandi glaðlynda Friðriks og gerði einnig vel í hlutverki Ebenesers á yngri árum. Mesta dýptin í verkinu náðist einmitt í atriðinu þar sem Ebeneser ungur á samskipti við æskuástina Bellu og Ebeneser eldri fylgist með sjálfum sér kasta frá sér því besta í lífinu, vegna ágirndar og eigingirni. Að öðru leyti eru ekki gerðar miklar tilraunir til sálarköfunar í sýningunni heldur er húmorinn látinn ráða för. Ég set örlítið spurningarmerki við það hvort sýningin hefði ekki orðið áhrifameiri ef aðstandendur hefðu leyft sér að ganga aðeins lengra í þessum efnum. Slíkt hefði alls ekki þurft að vera á kostnað gamansins og hefði jafnvel gert það áhrifameira fyrir vikið. Mörg atriða eru hinsvegar stórfyndin og skemmtileg. Sumstaðar skorti betra tempó og meiri hraða en það mun væntanlega slípast til með fleiri sýningum. 

Sögu Dickens er fylgt nokkuð vel eftir og er það hárrétt ákvörðun enda einstaklega frumleg og áhrifarík saga. Höfundar leyfa sér þó eðlilega nokkur frávik og tekst á köflum vel upp með þau. Jólaævintýri er heillandi og falleg saga en undirritaður játar að hann saknaði dálítið óhugnaðarins og jafnvel hryllingsins sem er í sögu Dickens. Aðallega er ég hissa á að ekki hafi meira verið lagt í lýsingu til að skapa meiri spennu og stemmningu, t.d. í innkomu drauganna og jafnvel einnig til að skerpa skilin milli viðkomandi draugsa og Ebenesers annarsvegar og þess sem verið var að sýna þeim síðarnefnda hinsvegar. Höfundar sækja í íslenskt draugagallerí og skopast með velþekkta Móra og Skottur og heppnast það stundum vel. Draugarnir sem heimsækja Skrögg eru ósköp meinlausir að sjá og reyndar hálfgerðir aular. Ekki er heldur gengið langt í þá átt að búa til jólastemmningu í umgerð ef undan er skilin snjókoman sem varð reyndar að hálfgerðu snjóflóði á frumsýningu og vakti kátínu áhorfenda hvort sem það var nú ætlunin eða ekki.

Aðall sýningarinnar er þó tónlistin. Fáir komast með tærnar þar sem Hugleikur hefur hælana í þeim efnum og að þessu sinni tekst afar vel til með þennan þátt. Snæbjörn Ragnarsson á lungann af lögum og texta í sýningunni en einnig á Þorgeir Tryggvason tvö lög. Tónlist þeirra félaga er stórgóð og í henni rís sýningin hæst. Þegar best lét var tónlistarflutningurinn frábær. Textar þeirra félaga eru einnig góðir en því miður var á köflum erfitt að greina orðin, sérstaklega þegar um einsöng var að ræða. Einstaka tónlistaratriði var einnig í lengra lagi og það hefði þjónað sýningunni betur að stytta þar aðeins. Einhver áhrif á þetta atriði hafði einnig hinn hvimleiði siður áhorfenda að klappa eftir hvert einasta númer og jafnvel áður en þeim lauk. Það er hið besta mál ef salurinn ræður ekki við sig af hrifningu og lætur það í ljós en þegar það verður skylduverk eftir hvert atriði er engum greiði gerður, allra síst leikhópnum. Ekki hjálpar heldur þegar leikarar hafa ekki þolinmæði til að bíða eftir að klappinu ljúki þannig að setningar komast ekki til skila sem stundum gerðist.
Fyrir utan lýsinguna eins og áður minnst á er ytri umgerð sýningarinnar ágæt. Leikmynd er einföld en þjónar verkinu vel og búningar ágætir sömuleiðis. Jólaævintýri Hugleiks er syngjandi skemmtileg sýning, með áherslu á ‘syngjandi’ og víst að þeir sem leggja leið sína í Tjarnarbíó munu skemmta sér vel.

Hörður Sigurðarson