Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir gamanleikritið Hinn eini sanni eftir Tom Stoppard í Hjáleigunni, Kópavogi.Ármann Guðmundsson hefur skrifað umfjöllun um sýninguna

LEIKFÉLAG KÓPAVOGS
Hinn eini sanni
eftir Tom Stoppard

Frumsýnt 20. október 2001 í Hjáleigunni

Leikritið Hinn eini sanni Seppi (eða Hinn eini sanni eins og Leikfélag Kópavogs kýs að kalla það í þessari uppsetningu sinni) eftir Tom Stoppard hefur notið talsverðra vinsælda á meðal áhugaleikfélaga frá því að Guðjón Ólafsson þýddi það fyrir Litla leikklúbbinn á Ísafirði fyrir margt löngu. Á meðal annarra leikfélaga sem hafa glímt við þessa sakamálaparódíu má nefna Leikfélag Selfoss, Leikfélag Hafnarfjarðar og Stúdentaleikhúsið. Síðastnefnda uppsetningin var reyndar sú eina sem undirritaður hafði séð þegar hann brá sér í Kópavoginn á dögunum og varð þá satt best að segja fyrir allmiklum vonbrigðum því hann hafði heyrt að þarna væri á ferð déskoti skemmtilegt verk. Til allrar hamingju sannfærði uppsetning Bjarna Guðmarssonar hjá LK mig um að sögusagnirnar voru réttar, þetta er déskoti skemmtilegt verk.

Image Leikritið er skopstæling á sakamálaleikritum í anda Agötu Christie og segir frá tveimur gagnrýnendum sem mættir eru á frumsýningu á nýju sakamálaleikriti. Annar þeirra á í ástarsambandi við aukaleikkonu í verkinu en verður umsvifalaust ástfanginn af aðalleikkonunni. Hinn er upptekinn af því að hann er bara varagagnrýnandi blaðsins og þráir ekkert heitara en að steypa aðalgagnrýnandanum af stóli. Þeir sogast svo fyrir röð tilviljana inn í sakamálaleikritið og fyrr en varir vitum ekki hver er hvað og hver drap hvern og þaðan af síður hvers vegna. En líkin hlaðast upp.

Galdur sýningarinnar liggur í stílnum sem Bjarni Guðmarsson hefur valið verkinu. Það er ofleikið af miklum krafti og eftir að hafa séð sýningu LK finnst manni eiginlega að allar aðrar leiðir til að setja leikritið upp hljóti að vera rangar (sem er auðvitað vitleysa). Leikarahópurinn er að uppistöðunni gamalkunnir LK-leikarar, Helgi Róbert Þórisson sem gagnrýnandinn Máni, Frosti Friðriksson sem hinn mjög svo grunsamlegi Símon Grafstein, Birgitta Birgisdóttir sem hin unga og saklausa Blíða Konráðs, Einar Þ. Samúelsson sem hinn fatlaði Magnús Moldá og Ágústa Sigrún Ágústsdóttir sem stígur á svið á ný með LK eftir alltof langt hlé. Það gustaði af henni í hlutverki tálkvendisins og ekkjunnar lafði Sælu Moldá. Þá voru þarna þrír ungir Vestmannaeyingar sem allir eru til tölulega nýgengnir til liðs við leikfélagið, Ástþór Ágústsson í hlutverki gagnrýnandans Spóa, Guðmundur L. Þorvaldsson sem Seppi lögreglufulltrúi og Júlíus Freyr Theodórsson sem lék lítið en kröfuhart hlutverk líksins. Loks var sérlegur gestaleikari Huld Óskarsdóttir úr leikfélagi Hafnarfjarðar og fór hún á kostum í hlutverki frú Puðu. Leikstjórinn sjálfur fór svo með hlutverk raddar í útvarpi.

Það er skemmst frá því að segja að heilt yfir stóð leikhópurinn sig frábærlega, það var helst að örlítils óöryggis yrði stundum vart hjá sumum af minna reyndu leikurunum en það var ekkert sem truflaði að ráði. Eins og svo oft áður tókst þeim Kópavogsbúum að nýta afar skemmtilega hið litla rými sem Hjáleigan býður upp á og var t.d. stórsnjallt hvernig svið félagsheimilisins var notað sem viðbót í bakgrunninn til að gefa sviðinu Hjáleigunnar aukna dýpt. Frosti Friðriksson á heiðurinn af leikmyndinni en einnig er vert að hrósa hljóðmynd verksins sem er afar mikilvægur þáttur sýningarinnar. Hún er skemmtilega unnin af Herði Sigurðarsyni. Það er því óhætt að hvetja áhugafólk um vandaðan ofleik að drífa sig í Hjáleiguna áður en það verður um seinan. Ég tel mig geta lofað þeim skemmtilegri klukkustund.

Ármann Guðmundsson