ImageHugleikur frumsýnir í Tjarnarbíó Jólaævintýri Hugleiks, laugardaginn 19. nóvember kl. 20.00. Leikfélagið ræðst nú í það stórvirki að setja upp leikgerð af Jólaævintýri Dickens. Þetta er fyrsta íslenska leikgerðin á þessari sögu, sem hefur verið vinsælt viðangsefni leikhúsfólks frá því hún kom út árið 1843. 

Söguna þekkja flestir, klassísk saga sem öll fjölskyldan getur notið saman, og er kjörin til að koma fólki í jólaskap. En að sjálfsögð láta Hugleikarar sér ekki nægja að fara einföldu leiðina að efninu, heldur flytja atburðna úr Lundúnaþoku nítjándu aldar inn í íslenskt sveitaumhverfi. 

ImageHann Ebenezer gamli Skröggur er nú kominn inn í íslenska nítjándu aldar baðstofu, Tommi litli leikur sér að legg og skel og draugarnir þrír eru íslenskar skottur og mórar. Og þrátt fyrir dramatískan undirtón sögunnar er vörumerki Hugleiks að ærslast með efniviðinn og gera hann að sínum.

Höfundar eru þau Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason. Með hlutverk Ebenezers Skröggs fer Björn Thorarensen, en alls standa um tuttugu manns á sviðnu. Leikstjórn er í höndum höfunda.

Sýningar fara fram í Tjarnarbíói og standa yfir fram í miðjan desember, auk tveggja sýninga milli jóla og nýjárs. Í sýningunni eru fjölmörg sönglög sem þegar hafa verið hljóðrituð og gefin út á geisladiski sem verður til sölu í miðasölu. Um undirleik sér hljómsveitin Forynjur og draugar, en þar eru m.a. innanborðs félagar úr hljómsveitunum Ampop, Hraun og Innvortis, auk þss sem velflestir leikaranna grípa í hljóðæri þegar mikið liggur við

Jólaævintýri Hugleiks er viðmesta uppfærsla félagsins síðan fjölskyldusöngleikurinn Kolrassa sló í gegn árið 2002.

Þegar er orðið uppselt á nokkrar sýningar í desember, þannig að þeir sem ætla að sjá stykkið eru hvattir til að panta sem fyrst, en aðeins eru fyrirhugaðar 12 sýningar.

Miðapantanir eru í síma 551 2525 og einnig er hægt að panta á vef Hugleiks.
Miðaverð er kr. 2.000.

Sýningar verða sem hér segir:

Frumsýning: Lau. 19/11 kl. 20:00 – nokkur sæti laus   
2. sýning: Mið. 23/11 kl. 20:00
3. sýning: Fös. 25/11 kl. 20:00
4. sýning: Fös. 02/12 kl. 20:00 – uppselt
5. sýning: Lau. 03/12 kl. 20:00 – nokkur sæti laus
6. sýning: Fös. 09/12 kl. 20:00 – uppselt
7. sýning: Lau. 10/12 kl. 16:00 – uppselt
8. sýning: Sun. 11/12 kl. 20:00
9. sýning: Lau. 17/12 kl. 20:00 – nokkur sæti laus
10. sýning: Sun. 18/12 kl. 20:00
11. sýning: Fim. 29/12 kl. 20:00
12. sýning: Fös. 30/12 kl. 20:00