Tom, Dick & Harry
Höfundar: Ray og Michael Cooney
Þýðing og leikstjórn: Hörður Sigurðarson
Ég fór í gær á sýningu Leikfélags Kópavogs á farsanum Tom, Dick & Harry eftir feðgana Ray og Michael Cooney. Ray hefur stundum verið kallaður farsakóngurinn og hafa mörg verka hans eins og t.a.m. Með vífið í lúkunum, Beint í æð og Nei ráðherra verið sýnd hér á landi bæði hjá stofnanaleikhúsunum og hjá leikfélögum um allt land við gífurlegar vinsældir. Það er því fengur í því að fá þetta verk á fjalirnar hér á landi og ég spái því að það eigi eftir að kitla hláturtaugar landans um langa hríð. Allavega fannst mér þetta vera alveg sprúðlandi skemmtilegt og ég vona að hláturrokurnar hjá mér hafi ekki hrætt ungan sessunaut minn sem mér sýndist að vísu skemmta sér afar vel.
Þessi nýja þýðing Harðar Sigurðarsonar hitti vel á hláturstaugarnar. Honum tekst vel að þýða orðaleiki og ambögur enskunnar yfir á ylhýra málið okkar og eins tekst honum einstaklega vel að þýða hana yfir á albönsku, táknmál eða hvaða tungumál það voru sem hljómuðu á sviðinu þetta kvöld. Hörður leikstýrir einnig verkinu og heldur mjög vel utan um ýktan farsaleikinn og hraðann í atburðarásinni. Aldrei var dauður punktur í sýningunni, skiptingar og tempó hnökralaust og vel var haldið utan um leikarahópinn.
Það er alltaf gaman að sjá leikara takast á við þrjú aðalhlutverk og það verður að segjast að að þeir Halldór Sveinsson, Ingvar Örn Arngeirsson og Benjamín Fannar Árnason brilleruðu í hlutverkum sínum sem bræðurnir mistæku Tom, Dick og Harry. Þeir skiluðu vel persónum sínum og mynduðu afar skemmtilegt þríeyki á sviðinu. Aðrir leikarar stóðu sig vel og má þar nefna Guðlaugu Björk Eiríksdóttur, sem lék Lindu konu Toms, af miklum myndarskap og Björgu Brimrúnu Sigurðardóttir, sem túlkaði vel embættiskonuna frú Potter. Arnfinnur Daníelsson var eiginlega of raunverulegur sem bresk lögga og Barry Ward sem austur-evrópskur bófi. Selma Rán Lima var líka mjög trúverðug sem albanskur flóttamaður og reynsluboltinn Stefán Bjarnason var alger senuþjófur sem albanski afinn.
Umgjörð sýningarinnar var vel af hendi leyst af Maríu Björt Ármannsdóttur sem hannaði leikmynd og búninga og Skúla Rúnari Hilmarssyni sem hannaði lýsingu. Leikmynd og lýsing þjónuðu farsanum vel með hurðum út um allt og síðast en ekki síst fjölda innpakkaðra leikmuna sem skiptu miklu máli í framvindu verksins.
Leikfélag Kópavogs hefur í gegnum tiðina vandað valið á sýningum sínum og lagt mikinn metnað í uppsetningar þeirra. Og að þessu sinni er ekki brugðið út af venjunni. Tom, Dick & Harry er metnaðarfull sýning og þeim Kópavogsbúum til sóma. Þótt að verkið sé alveg drepfyndið þá er samt drepið á einu mikilvægasta vandamáli samtímans, flóttamannavandanum í heiminum og það er einmitt einkenni góðra gamanverka. Að vera fyndin en samt að benda á kýlið.
Ég hvet alla sem vilja hlægja dátt eina kvöldstund að drífa sig í Kópavoginn að sjá þessa 4 stjörnu sýningu.
Lárus Vilhjálmsson