Þjóðleikhúsið frumsýnir Pollock? eftir Stephen Sachs í Kassanum þann 30. nóvember. Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason og með aðalhlutverk fara Pálmi Gestsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Þýðingu gerði Mikael Torfason.

Pollock? Er glænýtt verk sem sýnt hefur verið við miklar vinsældir víðas vegar um Bandaríkin og hlaut Elliot Norton gagnrýnendaverðlaunin árið 2012. Verkið er byggt á sannsögulegum atburðum.

Listaverkafundur aldarinnar í hjólhýsi?

Í Pollock? segir frá Maude, fyrrum barþjóni sem býr í hjólhýsi umkringd munum sem hún hefur sankað að sér á flóamörkuðum. Meðal munanna er risastórt málverk sem hún keypti þrátt fyrir að hafa fundist það ljótt og hallærislegt slettuverk.  Maude gæti hins vegar setið á listaverkafundi aldarinnar í hjólhýsi sínu því sá grunur vaknar að verkið sé eftir sjálfan Jackson Pollock og tugmiljóna virði.  Til að ganga úr skugga um uppruna verksins fær Maude virtasta listfræðing samtímas, Lionel Percy, í heimsókn í hjólhýsið og fyrr en varir eru þessar ólíku manneskjur farnar að takast á um listina og lífið.  Lionel veit vissulega allt um listasögu heimsins – en Maude veit nú líka ýmislegt þó hún þekki kannski ekki þennan fjandans Pollock!

Sjá nánar á http://www.leikhusid.is