Skráningar eru hafnar í Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar vegna vorannar. Það er einvalalið kennara sem mun starfa við skólann og ásamt hinni reglubundnu kennslu munu nemendurnir kíkja á æfingar á uppsetningu Lísu í Undralandi og vera í návígi við listamennina sem að sýningunni koma. Kennarar verða : Benedikt Karl Gröndal, leikari, Brogan Davison, danshöfundur, Margrét Sverrisdóttir, leikkona, Pétur Ármannsson, leikari og Sólveig Guðmundsdóttir, leikkona.

Markmið skólans er að gefa ungu fólki tækifæri til að þroska og þróa aðferðir til að beisla sköpunarkraft sinn og beina honum í listrænan farveg. Áhersla er á sviðslistir í sem víðastri merkingu.

Umsóknarfrestur til að sækja um nám á vorönn 2015 er 6. janúar. Einungis er tekið við netumsóknum. Kennsla hefst 13. janúar.

Skólinn er fyrir börn í 3. -10. grunnskóla. Skipt verður í hópa eftir reynslu og aldri og er hver hópur einu sinni í viku, í 90 mín í senn. Kennt verður á mánudögum kl. 15:30, 17:00 og 18:30. Önnin telur 12 skipti.

Í lok námskeiðanna verður kynning/sýning á þvi sem nemendur hafa verið að vinna að á önninni.

Nánari upplýsingar um kennarana, skólann og skráningar má sjá hér.