Þjóðleikhúsið og Icelandair undirrituðu föstudaginn 5. maí samstarfssamning. Markmið hans er að auðvelda Þjóðleikhúsinu að fara til útlanda með íslenska leiklist. Leikför með Eldhús eftir máli – Hversdagslegar hryllingssögur til Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn markar upphaf samstarfsins. Ráðgerðar eru tvær sýningar dagana 30. og 31. maí.
undirritun.jpgÞjóðleikhúsið og Icelandair undirrituðu föstudaginn 5. maí samstarfssamning. Markmið hans er að auðvelda Þjóðleikhúsinu að fara til útlanda með íslenska leiklist. Leikför með Eldhús eftir máli – Hversdagslegar hryllingssögur til Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn markar upphaf samstarfsins. Ráðgerðar eru tvær sýningar dagana 30. og 31. maí.

Eldhús eftir máli – Hversdagslegar hryllingssögur er fyrsta sýningin sem Þjóðleikhúsið sýnir í þessu fornfræga leikhúsi í höfuðstað Danmerkur en verkið verður sett upp í Stærekassen. Eldhús eftir máli eða Et skræddersyet køkken – Gysere fra hverdagen verður flutt á íslensku en danskri þýðingu verður varpað upp á skjá. Það er Erik Skyum Nielsen sem þýðir verkið en hann hefur meðal annars þýtt átján smásögur eftir Svövu Jakobsdóttur á dönsku sem gefnar voru út undir samheitinu “Kvinde med spejl”. Fjárstuðningur til ferðarinnar kemur að mestu leyti frá Danmörku, frá PFA Pension Fund.

Samstarfssamningurinn við Icelandair auðveldar einnig Þjóðleikhúsinu að þiggja boð Konunglega leikhússins. Samningurinn gildir í eitt ár, með möguleika á endurnýjun. Það voru þau Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair sem undirrituðu samninginn í dag. Þess má geta að fyrir dyrum standa einnig leikferðir til Færeyja með Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarson, og á Ibsenhátíðina í Noregi með Pétur Gautur eftir Henrik Ibsen.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, mun slást í för með Þjóðleikhúsinu og flytja aðfaraorð um Svövu og skáldskap hennar á dönsku áður en sýningarnar hefjast. Vigdís var meðal fyrirlesara á dagskránni “Sunnudagskvöld með Svövu” í Leikhúskjallaranum, sem boðið var upp á í tengslum við sýningar á Eldhúsi eftir máli í Þjóðleikhúsinu.

Svava lést árið 2004. Hún hefði orðið 75 ára árið 2005 og fékk Þjóðleikhúsið Völu Þórsdóttur til að semja verk byggt á hugmyndaheimi hennar af því tilefni. Verk Völu er innblásið af fimm af smásögum Svövu. Svava hafði með skáldsögum sínum, smásögum og leikritum, mikil áhrif á íslenskt menningarlíf og samfélag á ofanverðri tuttugustu öld, en með verkum sínum miðlaði hún meðal annars skarpri sýn á stöðu konunnar í samfélaginu.

Sýningin á Eldhúsi eftir máli – Hversdagslegum hryllingssögum hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og hefur hún nú verið sýnd liðlega 70 sinnum fyrir fullu húsi á Smíðaverkstæðinu. Eldhús eftir máli hlaut nýverið Menningarverðlaun DV í leiklist. Leikstjóri sýningarinnar er Ágústa Skúladóttir, Stígur Steinþórsson er höfundur leikmyndar, Katrín Þorvaldsdóttir gerir búninga og gervi, Björn Thorarensen semur tónlistina og um lýsingu sér Hörður Ágústsson. Leikarar í sýningunni eru Kjartan Guðjónsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, María Pálsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Þórunn Lárusdóttir.

Allra síðasta sýning á Eldhúsi eftir máli er á sunnudagskvöld.