Hin árlega jaðarlistahátíð RVK Fringe Festival fer fram í annað sinn dagana 29. júní til 6. júlí. Hátíðin hefur tvöfaldast að stærð frá því á liðnu ári og verða yfir 250 sýningartímar á um 100 mismunandi viðburðum á hátíðinni.
Um er að ræða fjöllistahátíð sem er rekin af sjálfboðaliðum, og hafa áhorfendur val um að sjá alls kyns listasýningar, s.s. myndlist, tónlist, leiklist, dans, uppistand, kabarett, drag og stafræna list, ásamt því að geta sótt námskeið.
Þó eitthvað sé um viðburði á íslensku, þá fara flestir viðburðir fram á ensku eða án talaðs máls.
Viðburðirnir eru jafn margir og þeir eru misjafnir, og koma frá 25 löndum.
Tjarnarbíó er aðalbækistöð hátíðarinnar, og verður þétt dagskrá þar alla vikuna. Er þar bæði hægt að finna dansverk og leikhúsverk ásamt improv sýningunni Improv Iceland.
Frank Wurzinger var með eina af vinsælustu sýningum ársins í fyrra, The Confetti Maker, en snýr nú aftur með nýtt verk, hina stórskemmtilegu trúðsýningu Goodbye Gunther sem fjallar um dauðann. Sænska verðlauna sýningin Swan Woman er aftur á móti byggð á raunverulegum atburðum þar sem 13 svanir fundust inni á heimili sænskrar konu árið 2011. Krakkar hafa svo án efa áhuga á sirkúsbrögðum, tónlist og bardagalistum sem eiga sér stað í finnsku sýningunni Fatal Instrument.
Fleiri dansverk eru í boði en á síðasta ári, og auk tveggja íslenskra dansverka í Tjarnarbíói, Ég býð mig fram eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur og Mass Confusion eftir FWD Youth Company, má sjá ástralska dansverkið FEMME og tvö stutt verk eftir kýpverska dansarann Evie Demetriou á Dansverkstæðinu.
Youth Fringe er nýjung í ár, en þar er boðið upp á ókeypis námskeið fyrir 13-18 ára táninga, sem fara fram í Tjarnarbíói eða í sirkústjaldi Sirkús Íslands. Námskeiðin eru haldin af listamönnum sem koma fram á hátíðinni, og spanna leikhús, dans, uppistand, trúðleik, hönnun og markaðssetningu.
Í lok vikunnar fá svo þátttakendur tækifæri til að koma fram í atvinnuleikhúsi þegar þau geta sett upp sína eigin fjöllistasýningu í Tjarnarbíói.
The Secret Cellar er uppistands staðsetning hátíðarinnar, þar sem gestir geta meðal annars hlegið sig máttlausa á sýningu Hugleiks Dagssonar, Hooligan Dachshund eða sýningu Jono Duffy, Jesus Year.
Í Þjóðleikhúskjallaranum fara fram tvö bresk leikverk, hið margverðlaunaða verk Bleach sem fjallar um samkynhneigðan mann sem tekst á við kynlífsbransann og MOJAVE sem fjallar um símaklefa í miðri Mojave eyðimörkinni sem naut óvæntrar frægðar á tíunda áratugnum.
Í Norræna húsinu má finna ýmis norræn verk, en RVK Fringe er hluti af Nordic Fringe Network þar sem listamenn eru hvattir til að ferðast milli Norðurlanda með sýningar sínar. Ber þar helst að nefna spunasýninguna Throwaway! sem er með endurvinnsluþema og barnasýninguna Issun Boshi sem fer fram á norsku en er í raun japönsk þjóðsaga.
Hard Rock Cafe er einnig með troðfulla dagskrá, þrjár sýningar hvert kvöld, og eru þemu þar stefnumót, kyntjáning og kabarett.
American Single snýr aftur til leiks, en sú sýning er lifandi Tinder stefnumót sem naut mikilla vinsælda síðasta sumar. Fifi von Tassel ræður öllu í norsku kabarett senunni og mætir með sýninguna sína Varietease, en íslenski kabarett hópurinn Dömur og herra lýkur dagskránni í vikulok.
Þátttakendur voru hvattir til að finna sín eigin sýningarhúsnæði, og kennir margra grasa þar – þar má nefna innsetningu Báru Halldórsdóttur í Listastofunni sem kallast ÖRyrkinn/INvalid og sýnir hið hulda líf öryrkja á Íslandi. Aðgangur er ókeypis.
Lengsta sýningarnafnið er einnig í þessum hópi, og fer þessi sýning fram utandyra og í heimahúsi: A Time Travel Lip-Sync Silent-Disco Walking-Tour Performance House Party by The Orchestra of Kimis.
Þetta er aðeins brotabrot af því sem á sér stað. Hátíðin fer fram víða um Reykjavíkurborg, eða á yfir 17 staðsetningum.
Sýningarstaðirnir eru:
Aðventkirkjan, Bíó Paradís, Dansverkstæðið, Dillon, Gallerí Fold, Hannesarholt, Hard Rock, Hlemmur Square, IÐNÓ, Kaffi Lækur, Listastofan, Norræna húsið, R6013, Secret Cellar, sirkústjald Sirkús Íslands, Tjarnarbíó og Þjóðleikhúskjallarinn. Einnig fara sýningar fram utandyra.
Opnunarhóf fer fram á Hlemmi Square 29. júní milli kl 20 og 23.
Kvöldið eftir ganga listamenn fylktu liði frá Hlemmi Square að Tjarnarbíói, þar sem sérstakt forsýningarkvöld á sér stað frá kl 19:30. Þar sem um svo mörg atriði er að ræða, fær hver sýning 2 mínútur til að kynna sig á sviði, og úr verður hin besta kabarett sýning þar sem gestir geta punktað hjá sér hvað þeim finnst ómissandi.
Ókeypis aðgangur er að opnunarhófi og forsýningarkvöldi, en gestir geta svo annað hvort keypt sér hátíðararmband, dagspassa eða miða á einstakar sýningar.
Miðasala fer fram gegnum tix.is.
Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar hér, gegnum heimasíðu RVK Fringe eða með því að hlaða niður appinu RVK Fringe á iOS eða Android.
Hátíðin er styrkt af Reykjavíkurborg, Barnamenningarsjóði, Hlemmi Square, Gray Line, Íslandsstofu, Iceland Naturally, Appliquette og Fisherman.
Einnig hlýtur hátíðin stuðning frá öllum sýningarstöðum.